Sjókví í Patreksfirði: mismunur innan skekkjumarka – óvíst um sleppingu

Patreksfjörður. Mynd: Julie Gasiglia.

Búið er að slátra upp úr kvínni við Kvígindisdal í Patreksfirði sem gat fundust á þann 20. ágúst. Útsetning seiða í kvínna var 4. september 2021 og uppgefin fjöldi seiða við útsetningu 133.052 seiði.  Eftir að búið var að tæma kvínna og slátra öllum fisk var fjöldi slátraðra fiska 110.521 að meðtöldum þeim fiskum sem slátrað var fyrir 1. ágúst. Til viðbótar eru skráð afföll 19.069 fiskar. Samtals eru þetta 129.590 fiskar.

 Mismunur á fjölda fiska sem fór upphaflega í sjókvína og fjöldi slátraðra fiska var 3.462 sem er 2,6% segir í tilkynningu frá Matvælastofnun í dag.

Reynsla Matvælastofnunar af framleiðsluskýrslum eldisaðila er að reikna megi með um 2-4% skekkjumörkum frá fjölda útsettra seiða og þess sem slátrað er í hverri kví. Þessi skekkja í fjölda orsakast meðal annars vegna þess að fiskur er talinn við bólusetningu í seiðastöð á landi og síðan eru dregin frá afföll sem verða eftir bólusetningu í landeldisstöð og afföll sem verða eftir útsetningu í sjókvíar. 

Samkvæmt þessu er munurinn innan skekkjumarka og því ekki hægt að fullyrða út frá þessum mælingum að fiskur hafi sloppið úr kvínni.

Matvælastofnun hefur málið til rannsóknar og hefur til skoðunar orsök þess að göt komu á sjókvína auk þess sem beðið er eftir erfðagreiningu á löxum sem veiðst hafa með eldiseinkenni til þess að geta staðfest uppruna þeirra.

Frekari upplýsingar verða veittar þegar niðurstöður rannsókna liggja fyrir segir í tilkynningu Matvælastofnunar.

DEILA