Saga Hnífsdals í Eymundsson á Skólavörðustíg á föstudag

Saga Hnífsdals – eftir Kristján Pálsson verður kynnt á útgáfuhófi föstudaginn 1. september kl. 17.00 í Eymundsson á Skólavörðustíg. Boðið verður upp á léttar veitingar og bókin fæst á sérstökum útgáfuhófs-kjörum.

Saga Hnífsdals er saga fólksins þar frá landnámi til sameiningar við Ísafjörð árið 1971. Í bókinni er lýst sviptingasamri jarðasögu, sögu útgerðar sem þróaðist og myndaði stórt þorp með 500 íbúum, hörðum stéttaátökum, stofnun félagasamtaka og uppbyggingar gróskumikils mannlífs og menningar.

Þessi bók er metnaðarfullt fræðiverk en einnig heillandi saga Hnífsdælinga fram á okkar daga – stór saga af litlu þorpi sem markaði spor í sögu þjóðarinnar.

Kristján Pálsson er uppalinn á Ísafirði. Hann hefur starfað sem sjómaður og útgerðarmaður, sem sveitarstjóri á Suðureyri og sem bæjarstjóri í Ólafsvík og í Njarðvík. Þá sat hann á Alþingi í átta ár. Eftir farsælan feril í útgerð og stjórnmálum lauk Kristján meistaraprófi í sagnfræði við Háskóla Íslands.

DEILA