Laugardaginn 26. ágúst verður enn og aftur blásið til sundveislu í Önundarfirði og kýrin Sæunn heiðruð með sundi í klauffar hennar þvert yfir Önundarfjörð en eins og alþjóð veit synti Sæunn sér til lífs í október árið 1987 með því að stinga sér til sunds af bryggjusporðinum á Flateyri á flótta undan slátraranum og þveraði Önundarfjörð á fjórum jafnfljótum.
Önfirðingar og aðrir aðdáendur Sæunnar hafa haldið þessu afreki á lofti frá árinu 2018 og bjóða afreksfólki að synda undir öruggi eftirliti vestfirsks björgunarfólks í klauffar þessarar frægustu skepnu landsins. Sundið hefur fest sig í sessi og er alltaf haldið síðasta laugardag í ágúst, sem að þessu sinni er númer 26 í þeim fallega mánuði.
Engar fegurðar- eða búnaðarreglur eru í sundinu, syndarar mega vera alklæddir þartilgerðum kuldabúningum með froskalappir eða í einföldum sundfötum, ekki er þó mælt með að sleppa sundgleraugum. Þetta er ekki keppni heldur heiðurssund sem við höfum gaman að. Engu að síður verður að teljast gríðarlegt afrek hjá ungum piltum sem þreyttu sundið árið 2022 að spýtast yfir fjörðinn á sundskýlunni einni fata á innan við 45 mínútum. Przemyslav Pulawsky og Mateusz Blacha eru miklir garpar.
Í fyrra lögðu 32 syndarar af stað yfir fjörðinn og allir komu þeir aftur, sumir þó í björgunarbát. Árið 2018 voru það 9 ofurhugar sem lögðu af stað og komust allir yfir án aðstoðar.
Einhverjir tugir eru komnir á blað fyrir sundið í ár og það verður vel tekið á móti þeim.