REKSTRI SKAGANS 3X Á ÍSAFIRÐI HÆTT

Stjórn Skagans 3X hefur ákveðið að leggja niður starfsstöð fyrirtækisins á Ísafirði og hefur öllum 27 starfsmönnum fyrirtækisins þar verið sagt upp störfum. Ákvörðunin er afar þungbær en byggir á umfangsmikilli endurskipulagningu og hefur þegar verið kynnt bæjaryfirvöldum á Ísafirði og verkalýðsfélögum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu sem var að berast.

„Rekstur Skagans 3X hefur verið mjög þungur síðustu misseri og eins og áður hefur komið fram þurfti fyrirtækið að fara í viðamikið endurmat á skuldbindingum og kröfum í kjölfar eigendaskipta. Þá hefur ólga verið á helstu mörkuðum þess síðustu misseri, bæði vegna stríðsátaka sem tengjast Rússlandi og Covid heimsfaraldursins. Við höfum velt við hverjum steini þar sem þær rekstrar- og markaðslegu forsendur sem lagt var upp með við eigendaskiptin hafa ekki gengið eftir. Niðurstaðan varð sú að samþætta alla framleiðslu á Akranesi,“ segir Sigsteinn Grétarsson, forstjóri Skagans 3X.

Þýska fyrirtækið Baader eignaðist Skagann 3X að fullu á síðasta ári og verður áfram unnið að því að efla samkeppnishæfni fyrirtækisins á alþjóðamörkuðum og samþætta enn frekar starfsemina við alþjóðlega starfsemi Baader. Baader samsteypan og starfsmenn hennar á Íslandi munu áfram bjóða viðskiptavinum sínum upp á framúrskarandi þjónustu og varahlutasölu í nánu samstarfi  við íslenskan sjávarútveg og fiskeldi.

DEILA