Patreksfjörður: fjórir laxar við Ósá

Frá laxeldi í Patreksfirði.
Frá laxeldi í Patreksfirði.

Matvælastofnun segir í tilkynningu í gær að fjórir laxar hafi veiðst í net við Ósá í Patreksfirði og að þeir hafi allir borið merki um að eldisfiskar væru þar á ferð. Fiskarnir voru afhentir Hafrannsóknarstofnun til erfðagreininga og frekari rannsókna. 

Um síðustu helgi komu í ljós tvö lítil göt á kví við Kvígindisdal og voru sett út net við kvína en ekki komu fiskar í þau. Í framhaldi hóf Fiskistofa leit með dróna og sá fiska í Ósá í botni Patreksfjarðar. Lögð voru net  í Ósá og einnig í sjó nálægt ósi árinnar.

Fiskistofa hefur óskað eftir því að netum verði fjölgað í Patreksfirði og að áfram verði reynd netaveiði í sjó um helgina.

Daníel Jakobsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish sagði í samtali við Bæjarins besta að unnið væri af kappi að slátra upp úr kvínni þannig að sem fyrst yrði ljós hversu margir fiskar koma upp úr kvínni.

Rúmlega 70.000 fiskar voru í kvínni með um 5.5 kg að meðalþyngd.

Viðbragðsáætlun fyrirtækisins var virkjuð strax og götin uppgötvuðust.

Matvælastofnun hóf strax rannsókn á málinu og stendur sú rannsókn enn yfir segir í tilkynningu stofnunarinnar. Rannsókn stofnunarinnar miðar að því að finna út ástæðu fyrir götunum, fjölda fiska sem hafa strokið og einnig að kanna hvort innri gæðaferlum fyrirtækisins hafi verið fylgt í hvívetna.

DEILA