Minning: Elías H. Guðmundsson

1927-2019

Forystu safnaðarstarfs í Hólssókn í Bolungarvík hafði lengi á hendi sæmdarfólkið Einar Guðfinnsson, útgerðarmaður, Benedikt tengdasonur hans Bjarnason, kaupmaður, Elías H. Guðmundsson, póstmeistari, Guðmundur Hraunberg Egilsson, meðhjálpari, og Sigríður J. Norðkvist organisti.

Allt vildi fólk þetta kirkju og kristni vel.  Það hafði vanist þeim anda íslensks mannfélags, er verið hafði við lýði lengi,  að prestar væru óumdeildir höfðingjar, hver í sínu brauði; það voru þeir tímar, þegar fólk þéraði prestinn, hætti að blóta, þegar hann nálgaðist, einstöku maður tók jafnvel ofan.  Að ekki sé talað um virðinguna fyrir blessuðum biskupnum; þá lá nærri að menn féllu á kné.  Presturinn var ótvíræður leiðtogi safnaðarins og sóknarnefndir skyldu vera honum til aðstoðar í starfi hans: stuðla að því að komið væri við klukku og farið með gott hvern helgan dag, og var það ófrávíkjanleg regla í Hólskirkju frá dögum síra Þorbergs  – en kirkjusókn með afbrigðum góð;  annast reikningshald, sjá um að nóg væri til af kertum í guðshúsinu, að ógleymdu messuvíni og oblátum, tryggja  að unnt væri að jarða lík í kirkjugarðinum; allt endurgjaldslaust og í guðsástar skyni, þó aldrei að vita nema væri látinn koma til organistans konfektpoki með kærri kveðju og þökk á jólunum.

                Mikil umskipti urðu þegar sumar sóknarnefndir voru ekki lengur hógvær og kirkjurækinn bakhjarl, áfram um það eitt, að viðhalda kristnum sið í landinu, heldur aðsópsmikil ráð með formann á launum,  er vildi halda sem flesta fundi, þar sem margt og mikið bar á góma.  Hirðir hirðanna mátti heita orðinn heldur lítilsráðandi, (sem rímar raunar ágætlega við lúthersk viðhorf).  Sem betur fer og Guði sé lof voru á þessu undantekningar.  En hvað um gildir, eitt er víst: af engum sköpuðum hlut, hvorki á himni eða jörðu, stendur biskupum landsins eins mikill stuggur og einmitt þeim hópi fólks, sem víða hefur hreiðrað um sig í sóknarnefndum, dögum oftar í von um frekari mannvirðingar í hinu veraldlega regímenti. Um messusókn þess á helgidögum getur ekki.  En Guð blessi það samt!

               Dr. Marteinn Lúther, kirkjufaðir hinnar evangelísk-lúthersku kirkju kenndi, að hinum  kristna manni væri dauðinn örskammur svefn, enda er dauðinn nefndur svefn í Heilagri ritningu og það með réttu.  En af þeim svefni, svo sem af sætum blundi,  vaknaði hinn kristni aftur til lífsins með Guði.  Það væri eins og að halla sér til hvíldar seint að kveldi, en vakna svo aftur að lítilli stundu liðinni við glampandi morgunsól.

               Þegar stofnað var Styrktarfélag vangefinna á Vestfjörðum með geysimikilli þátttöku íbúa landsfjórðungsins, munaði ólítið um Elías.  Hann var og áhugasamur félagi Karlakórsins Ægis í Bolungarvík.

Elías var fæddur sálusorgari, og það af Guðs náð.  Mönnum var léttara um hjartað, er þeir fóru af hans fundi.  Hann var enda vel gefinn  og búinn næmri spauggreind.

               Guð gefi ástvinum hans alla himneska blessun og náð, hér og í komandi heimi.  Hann blessi minningu drengsins góða, Elíasar Hólmgeirs Guðmundssonar.

Gunnar Björnsson

pastor emeritus

DEILA