Metanknúnir bílar ekki lengur í boði

Metangas er aðeins í boði á 5 dælustöðvum á landinu. Ljósmynd FIB

Komið hefur fram í fréttum að bílaumboðið Hekla hefði selt sinn síðasta metanbíl að sinni.

Haft er eftir forstjóra Heklu, Friðberti Friðbertssyni, að ekki stæði til að flytja inn fleiri metanbíla að óbreyttu. Ekkert annað bílaumboð flytur inn metanknúna fólksbíla.

Fram kom í viðtali á RÚV við framkvæmdastjóra FÍB að nú væru innan við átján hundruð metan fólksbílar skráðir í notkun hér á landi.

Framleiðendur hafa flestir hætt að þróa metan-tvinn bíla þannig að framboðið er mjög takmarkað. Á móti kemur að rafbílasala hefur verið mikilli sókn á liðnum árum. Hreinir rafbílar eru um 38% af nýskráðum fólksbílum það sem af er þessu ári og rafbílar eru um 27% af fólksbílaflotanum. Metanbílar virðast hafa orðið undir í samkeppni við rafbílinn.

Orkuskipti í samgöngum á landi eru staðreynd en hlutfall metans sem orkugjafa í þeim umskiptum fer hratt minnkandi.

DEILA