MERKIR ÍSLENDINGAR – EIRÍKUR KRISTÓFERSSON

Eiríkur Kristófersson fæddist á Brekkuvöllum á Barðaströnd 5. ágúst 1892, sonur Kristófers Sturlusonar, bónda á Brekkuvelli, og Margrétar Hákonardóttur húsfreyju.
 

Eiríkur lauk smáskipaprófi 1917 og farmannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík ári síðar.
 

Hann fór fyrst á sjó 1908 og var á ýmsum skipum til 1924 en eftir það á skipum Landhelgisgæslunnar og leiguskipum hennar, og skipherra á flestum skipum Gæslunnar.
 

Eiríkur varð þjóðhetja í þorskastríðinu 1958-61 er Íslendingar færðu landhelgina út í tólf mílur. Hann var þá skipherra á flaggskipum Gæslunnar, Þór III og síðan Óðni III sem bættist nýr í flotann, 1959, og þótti góður liðsauki í rimmunni við bresku herskipin á Íslandsmiðum. Var þá mikill hugur í Íslendingum eins og textar vinsælustu dægurlaganna frá þeim tíma bera með sér, s.s. „Þau eru svo eftirsótt Íslandsmið, að enskir, þeir vilja oss berjast við“, eða „Við gefumst aldrei upp þótt móti blási.“
 

Það kom í hlut Eiríks, öðrum fremur, að stugga við breskum togurum við þessar erfiðu aðstæður og stóð hann þá oft í skeytasendingum við breska flotaforingjann, Anderson.
 

Eiríkur þótti afar traustur skipstjórnarmaður, yfirvegaður, varkár en staðfastur, og naut virðingar landa sinna sem mótherja.

Eiríkur var varaformaður Skipstjórafélags Íslands, fulltrúi í sjómannadagsráði og sat í Sjódómi Reykjavíkur. Hann átti þátt í að bjarga og aðstoða 640 skip og báta á löngum og farsælum skipstjórnarferli og var sæmdur fjölda heiðursmerkja, m.a. frá breska heimsveldinu. Þá var hann heiðursfélagi SKFÍ.
 

Fyrri kona Eiríks var Jóhanna Una Eiríksdóttir. Þau slitu samvistir.

Börn þeirra: Sturla, Bergljót og Eiríkur.

Seinni kona Eiríks var Hólmfríður Gísladóttir verslunarkona, f. 29.11.1898, d. 11.1.1979.
 

Eiríkur lést 16. ágúst 1994.

 

Morgunblaðið 4. desember 1962. 
Skráð af Menningar-Bakki.

DEILA