Kynningarviðburður Baskaseturs í Djúpavík fór fram í frábæru veðri miðvikudaginn 23. ágúst. Grunnskólanemar frá Hólmavík og Drangsnesi undir leiðsögn Ástu Þórisdóttur sáu um uppsetningu á verkstæði í gerð hljóðfæra úr rusli og léku svo á hljóðfærin sem voru gerð á staðnum við samspil tveggja hljómsveita frá Baskahéruðum Frakklands, HABIA tríósins og Txalaparta dúósins. Þessar tvær hljómsveitir voru svo með tónleika bæði í verksmiðjubyggingunni og í síldartanki þar sem hljómburðurinn er í hæstu gæðum.
Ólafur J. Engilbertsson, Héðinn Ásbjörnsson og Þórarinn Blöndal kynntu Baskasetur. Mikel Leoz og Enara Novillo frá Albaola á Spáni sögðu frá Albaola fornbátasafninu og kynntu aðkomu Albaola að verkefninu við að leiðbeina íslenskum bátasmiðum við að smíða baskneskan léttabát, „txalupa“.
Denis Laborde frá Haizebegi hátíðinni í Bayonne flutti erindi um baskneska tónlist.
Catherine Chambers og Alexandra Tyas sögðu frá hlut Háskólans á Vestfjörðum í baskneska verkefninu sem tengist fræðslu um strandmenningu og umhverfisvitund.
Elfar Logi Hannesson leiklas hluta úr leikriti eftir Tapio Koivukari um Ariasman sem verður frumflutt í heild sinni á Baskasetri síðar.
Baskasetur er samstarfsverkefni Baskavinafélagsins, Háskólaseturs Vestfjarða, Albaola á Spáni, Haizebegi í Frakklandi og Hótels Djúpavíkur sem hýsir væntanlegt Baskasetur. Verkefnið nýtur styrks frá Creative Europe, Brothættum byggðum á vegum Byggðastofnunar og Fjórðungssambandi Vestfirðinga.