Kerecis: Vestfirðingar verða áfram jaðarsettur hópur í samgöngum

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis.

Kerecis á Ísafirði sendi umsögn í samráðsgátt stjórnvalda um drög að samgönguáætlun 2024-38 og þar er lýst yfir vonbrigðum með fyrirliggjandi samgönguáætlun og segir að nái tillögurnar fram að ganga munu Vestfirðingar áfram verða jaðarsettur hópur þjóðarinnar sem ekki njóti sömu samgangna og aðrir þegnar landsins.

„Vegakerfi Vestfjarða er hið lang lakasta á Íslandi og þegar áætluninni lýkur, árið 2038, verður það ennþá hið lang lakasta. Vestfirðir þurfa að njóta forgangs þegar fjármunum til samgöngumála er úthlutað þannig að hægt sé að vinna upp þá samgönguskuld sem byggst hefur upp á svæðinu frá upphafi vegagerðar á Íslandi.“

Þá segir: „Áætlunin tekur ekki mið af borgararéttindum Vestfirðinga, þörfum atvinnulífs eða mannlífi á Vestfjörðum. Það er algjörlega nauðsynlegt að hraða samgönguframkvæmdum og forgangsraða með allt öðrum hætti, þar sem mið er tekið af borgararéttindum Vestfirðinga, verðmætasköpun á svæðinu og styrkingu menningarlífs.“

150 milljarða króna útflutningstekjur frá Vestfjörðum

Kerecis leggur áherslu á láglendisveg milli megin byggðarlaga Vestfjarða s.k. „Vestfjarðarlína“ og höfuðborgarvæðisins og segir hann nauðsynlegan fyrir áframhaldandi vöxt Kerecis og annarra vaxtarsprota á svæðinu, sem eru undir sama hatt settir og „er nærtækast að nefna laxeldið sem er farið að skila verulegum útflutningstekjum í þjóðarbúið. Búast má
við að tekjur þessara atvinnugreina, ásamt tekjum frá hefðbundnum atvinnugreinum á svæðinu, verði yfir 150 milljarðar króna innan nokkurra ára.“ Til viðbótar við Vestfjarðarlínuna telur Kerecis þörf á að huga að innviðum fyrir flug með nýjum flugvelli á Ísafjarðarsvæðinu.

Einkaframtakið snýr við þróuninni

Rakin er íbúaþróunin á Vestfjörðum sem hafi um langt árabil verið neikvæð en var snúið við eftir að fjöldi Vestfirðinga náði lágmarki árið 2017. „Viðsnúninginn má rekja til aukinna einkafjárfestinga á svæðinu, sem sköpuðu ný og áhugaverð störf sem hæft fólk sóttist eftir. Þessi auknu umsvif má að stærstum hluta rekja til fiskeldisfyrirtækja og Kerecis, sem orðinn er einn stærsti einkarekni vinnustaðurinn á Ísafirði.“

Góðar samgöngur séu lífæð Kerecis og fiskeldisfyrirtækjanna og forsenda blómlegs mannlífs á Vestfjörðum.

„Eftir margra áratuga vanrækslu hefur hreyfing komist á framkvæmdamál í fjórðungnum, en með nýlegum
vegaframkvæmdum er einungis greitt inn á þá viðhaldsskuld sem hefur safnast upp yfir langan tíma, en ekki búið varanlega í haginn fyrir framtíðina.“

Um jarðgangatillögurnar segir Kerecis að það Kerecis fagni því að Súðavíkurgöng og breikkun Vestfjarðaganga séu á jarðgangaáætlun, en hvetur til þess að ætluðum verklokum verði flýtt verulega en verði ekki 2039. Hugmyndir um
jarðgangagerð við Klettháls eru líka allt of seint á ferðinni. Þá harmar Kerecis að vegurinn milli Ísafjarðar og Hnífsdals sé ekki á samgönguáætlun, en ofanflóð og hættan á lokunum getur stefnt í hættu hráefnisöflun Kerecis sem fær ferskt þorskroð til sinnar starfsemi frá Hnífsdal.

Undir umsögnina ritar Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis.

DEILA