Íslandsmót í hrútadómum um næstu helgi

Vanir hrútaþuklarar stiga hrútana eftir öllum kúnstarinnar reglum. Mynd: Dagrún Ósk.

Árlegt Íslandsmeistaramót í hrútadómum verður haldið á Sauðfjársetrinu í Sævangi á Ströndum þann 20. ágúst og hefst kl. 14. Á þessu ári eru liðin 20 ár síðan Strandamenn fundu upp þessa keppnisgrein og verður því mikið um dýrðir.

Undirbúningur fyrir helgina gengur vel. Það er alltaf góð þátttaka í hrútadómunum, en keppt er í tveimur flokkum. Annars vegar er flokkur þaulreyndra hrútadómara og hins vegar flokkur fyrir óvana og hrædda hrútaþuklara sem kunna ekki stigakerfið.

Venjulega eru keppendur um og yfir 50 og fjölmargir fleiri mæta til að horfa á keppendur sýna snilli sína.

Vanir keppendur gefa hrútunum stig fyrir einstaka þætti eins og t.d. bakbreidd, læri, útlit og samræmi og fara þá eftir.

Á síðasta ári stóð Gunnar Steingrímsson á Stóra-Holti í Fljótum uppi sem sigurvegari og er núverandi Íslandsmeistari í hrútadómum.

Að venju verður kjötsúpa á boðstólum og kaffihlaðborð allan liðlangan daginn. Einnig er stórskemmtilegt happdrætti og eru líflömb frá bændum á Ströndum og í Reykhólasveit í vinning.

Þau sem komast ekki á staðinn geta tekið þátt og keypt sér miða í gegnum Facebook síðu Sauðfjársetursins eða hjá Ester í síma 693-3474.

DEILA