Ísafjörður: skoðar EPI umhverfisstjórnunarkerfið fyrir höfnina

Tvö skemmtiferðaskip voru í Ísafjarðarhöfn í gær og var lítinn sem engan reyk að sjá frá þeim. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur fengið kynningu á EPI umhverfisstjórnunarkerfinu, eða Environmental port index.

Þetta kemur fram í fundargerð hafnarstjórnar. þar segir ennfremur að með því að nota EPI kerfið fái höfnin upplýsingar frá skipunum um hvað þau menga mikið þegar þau stoppa í höfn. EPI er fjárhagslegt hvatakerfi til umhverfisvænni og sjálfbærari reksturs skemmtiferðaskipa þar sem ívilnun eða álögur hafnarinnar fara þá eftir umhverfishegðun skemmtiferðaskipa. Det Norske Veritas heldur utan um og reiknar út umhverfiseinkunn og DNV mælir með því að styðjast við fyrirkomulag hafnarinnar í Stavanger. Með innleiðingu kerfisins hefur meðalaldur skipa í Noregi lækkað um 10 ár segir í fundargerðinni.

Hægt er að kynna sér málið nánar á heimasíðunni https://epiport.org/


Hafnarstjórn tók jákvætt í innleiðingu umhverfisstjórnunarkerfis og fól hafnarstjóra að afla meiri uppýsinga um kerfið og mögulegan kostnað við að taka það upp, og leggja aftur fyrir nefndina.

DEILA