Ísafjarðarbær harmar lokun Skagans 3X

Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tók fyrir á fundi sínum í gær lokun Skagans 3X á starfsstöð sinni á Ísafirði. Í ályktun bæjarráðsins segir að það harmi þá ákvörðun Skagans 3x að loka starfsstöð fyrirtækisins á Ísafirði. „Þetta eru þungbæjarar fréttir fyrir samfélagið og starfsmenn Skagans 3X. Um er að ræða reynslumikla starfsmenn með góða menntun sem við viljum ekki missa úr samfélaginu.“

Þá segir:
„Vonast er til þess að önnur fyrirtæki á svæðinu sjái tækifæri í að ráða þessa starfmenn eða að nýtt félag verði stofnað á grunni 3X. Saga félagsins á Ísafirði er stórmerkilega, enda félagið eitt af þeim fremstu í tækni og nýsköpun á landsvísu. Þykir bæjarráði miður að Skaginn 3X sjái ekki tækifæri til áframhaldandi atvinnuuppbyggingar og framþróunar á Vestfjörðum, enda sjávartengd starfsemi í miklum vexti á svæðinu.“

Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs sagði í samtali við Bæjarins besta að Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri hefði þegar óskað eftir því við Vestfjarðastofu að greina stöðuna betur og athuga sérstaklega hvaða tækifæri væru til staðar. Benti Gylfi á að húsnæði Skagans 3X væri stórt og það gæti nýst í sambærilega starfsemi. Sagðist hann vonast til að fyrrverandi starfsmenn sæju möguleika á því að setja af stað starfsemi sem þjónustar fiskiðnaðinn og laxeldið á svæðinu og einnig á alþjóðlegan markað.

Gylfi Ólafsson sagði að þegar eitthvað bitastætt væri komið út úr athuguninni myndi bærinn styðja við frumkvæði einkaaðila.

DEILA