Hvítisandur: Samningur um sjóböð í Önundarfirði

Búið er að undirrita samning um land undir umhverfisvæn sjóböð á Hvítasandi í landi Þórustaða innst í Önundarfirði. Böðin munu nýta varmaorku úr sjó til að hita laug, potta og sturtur og verða staðsett í gamalli sandnámu niður við hvíta skeljasandsströnd nálægt Holtsbryggju. Endi gamallar flugbrautar verður nýttur sem bílastæði og munu böðin því einungis nýta raskað land undir framkvæmdir og byggingar. Sérstaklega er gætt að því að raska ekki fjölbreyttu fuglalífi í nágrenni baðanna og þau eru felld inn í umhverfið og hönnun og efnisval tekur mið af einstakri náttúru svæðisins. Hönnuðir baðanna eru Son&Sen arkitektar en EFLA verkfræðistofa sér um tæknilega og verkfræðilega hönnun.

Leigutaki og framkvæmdaaðili er Blævængur ehf., en meðal samstarfsaðila þess eru landeigendur, EFLA, Vestfjarðastofa og Uppbyggingarsjóður Flateyrar. Teikningar og útfærsla sjóbaðanna hafa þegar verið kynntar íbúum á svæðinu.

Aðgengi að hinni vinsælu sjóbaðsaðsaðstöðu við Holtsbryggju mun með böðunum batna verulega, en bryggjan og nágrenni hennar eru vinsæll áningarstaður ferðamanna á Vestfjörðum.

„Næsta skerf er stofnun og fjármögnun félags um þessa uppbyggingu ásamt nauðsynlegri skipulagsvinnnu“ segir Áslaug Guðrúnardóttir, stjórnarformaður Blævængs. „Hér finnum við fyrir mikilli jákvæðni gagnvart þessu verkefni sem við höfum verið að vinna að í tvö ár. Við sjáum fyrir okkur að Hvítisandur verði mikilvægur segull í umhverfisvænni ferðaþjónustu Vestfjarða þar sem áhersla er á gæði þjónustu í sátt við umhverfi og samfélag þar sem byggingar og starfsemi falli að umhverfinu og virði það en skerði það ekki. Þá erum við hér einnig í samstarfi við EFLU að þróa nýtingu á varmaorku úr sjó með varmadælum sem gæti í framtíðinni nýst til orkuöflunar á Vestfjörðum og öðrum köldum svæðum, en hér er viðvarandi raforkuskortur sem slík tækni gæti átt þátt í að leysa.“

Myndatexti: Björn Björnsson, bóndi á Þórustöðum og Áslaug Guðrúnardóttir, stjórnarformaður Blævængs ehf. skrifa undir leigusamning um land undir sjóðböðin á Hvítasandi. Með þeim á myndinni er hundurinn Depill.
DEILA