Hvítisandur: baðstaður í Önundarfirði

Lögð hefur verið fram í skipulags- og mannvirkjanefnd skipulagslýsing á aðal- og deiliskipulagsstigi í landi Þórustaða í Önundarfirði við Hvítasand, vegna áforma um nýjan baðstað.

Hrafnhildur Brynjólfsdóttir, skipulagsráðgjafi hjá EFLU og Runólfur Ágústsson hjá Blævangi ehf. mættu til fjarfundar við nefndina og ræddu hugmyndavinnu að „Hvítasandi“ í Önundarfirði.

Skipulags- og mannvirkjanefnd samþykkti að leggja til við bæjarstjórn að heimila vinnu við deiliskipulag „Hvítasands“ í landi Þórustaða og samhliða var samþykkt að heimila breytingu á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020.

Áætlað er að nýta núverandi aðkomuveg að Holtsbryggju sem aðkomu að baðstaðnum og nýta gömlu malbikuðu flugbrautina fyrir aðkomu og bílastæði. Núverandi vegaslóði frá flugbrautarenda niður í gamla sandnámu í Holtsfjöru verði nýttur sem aðkoma gesta frá bílastæðinu að böðunum. Sjálf böðin eru áformuð í gamalli sandnámu sem þarna er í fjörunni. Þá er áfram miðað við að almenningur hafi aðgang að fjörunni og þar verði opin sturtuaðstaða fyrir öll sem vilja baða sig í sjónum, hér eftir sem áður, án þess að fara í böðin.

Gert er ráð fyrir sjóböðum og þjónustubyggingu með búningsklefum, gufuböðum og veitingastað í um 200 metra fjarlægð vestan við Holtsbryggju. Sjóböðin verða í fjöruborðinu og mynda sterka tengingu við hafið og ströndina. Frumhönnun gerir ráð fyrir að þjónustubyggingin verði felld að landinu á móti suðri og hægt verði að ganga upp á þakið og njóta útsýnis. Þegar komið er inn í þjónustubygginguna, og áfram út á laugarsvæðið verði hægt að ganga þaðan út á nýja bryggju til að fara í sjósund. Til skoðunar er að staðsetja þar heitan pott í heillandi fögru umhverfi með útsýni til allra átta.

Skipulagslýsing

DEILA