Matvælaráðuneytið hefur birt skýrslu um hvalveiðar, sem fyrirtækið Intellecon vann fyrir ráðuneytið. Athyglisverðasta niðurstaðan er að vart verði séð að hvalveiðar hafi haft merkjanleg áhrif á útflutning Íslendinga og jafnframt að ekki virðist að hvalveiðar hafi haft neikvæð áhrif a ferðamannastrauminn.
Rakið er hvernig ferðamönnum hefur fjölgað frá því að hvalveiðar hófust að nýju og voru þeir t.d. árið 2018 um 2 milljónir eða fimm sinnum fleiri en árið 2006. Voru það ár þó veiddar 140 langreyðar. Þótt viðhorf í viðskiptalöndum Íslendinga sé neikvætt til hvalveiða þá koma ferðamennirnir eftir sem áður og það í vaxandi mæli. Hrakspár um neikvæð efnahagsleg áhrif hvalveiða fyrir landsmenn hafa því ekki ræst. Hræðsluáróður frá andstæðingum hvalveiða og aðilum í ferðaþjónustunni hefur reynst innistæðulaus.
Það ætti því að vera óhætt að ræða um hvalveiðar án tillits til mögulegra áhrifa þeirra á útflutningsgreinar.
Þar er auðvitað fyrst að nefna að nýting stofnanna sé sjálfbær eins og það heitir í dag. Að ekki sé veitt meira úr stofninum hverju sinni að það valdi því að hann minnki. Það er ekki skoðað í skýrslunni en skv. tölum Hafrannsóknarstofnunar er leyfð veiði á nokkrum hvalastofnum mjög lítil og stofnarnir eru frekar að vaxa. Líklega mætti auka kvótann allnokkuð án þess að ganga á viðkomandi stofn.
Í öðru lagi er dregið fram í skýrslu Intellecon að um 120 manns starfaði við vinnslu á hvalaafurðum á síðustu vertíð og að meðallaun starfsmanna við veiðar og vinnslu hvals voru milli 1,7 – 2 milljónir króna á mánuði sem er langt fyrir ofan meðallaun í landinu. Sem sagt mjög vel launið störf. Yfir vertíðina er áætlað að hver starfsmaður missi 2 – 3,8 mkr. í launum ef ekki væri hvalveiðivertíð og hann ynni annað starf.
Munur á launasummu þessa hóps þegar unnið er við hvalveiðar og vinnslu miðað við að unnin séu önnur störf, að gefnum sömu forsendum liggja á bilinu 240 – 456 milljónir króna segir í skýrslunni. Þetta eru tekjurnar sem starfsmennirnir tapa ef engin hvalveiðivertíð er.
Aðeins eitt fyrirtæki hefur stundað hvalveiðar á síðustu árum og segir að samkvæmt ársreikningum þess hafi oftast verið tap af hvalveiðum þegar þær eru stundaðar. En bent er á að tapið hafi verið mest þau ár þegar ekki voru stundaðar veiðar. „Því er varhugavert að draga þá ályktun að rekstrarniðurstaða fyrirtækisins væri jafn
neikvæð og þessar tölur gefa til kynna hefði fyrirtækið stundað veiðar og sölu hvalaafurða allt þetta tímabil.“
Það er einmitt kjarni málsins. Fullyrðingar um tap af hvalveiðum eru ekki reistar á mjög traustum grunni. Helsti vandi hvalveiða er að fselja afurðirnar. Alþjóðasamningur um verslun með villt dýr og plöntur í útrýmingarhættu (CITES) bannar viðskipti með hvalaafurðir milli flestra þjóða heims. Það eru einkum Japanir og Norðmenn sem ekki fylgja því og afurðirnar eru seldar til Japans.
Hvernig markaðurinn þróast er viðfangsefni fyrirtækjanna að finna út úr. Það er ekki verkefni ríkisins að banna atvinnustarfsemi á þeim forsendum að hún sé ekki að einhverra mati nægjanlega arðbær. Sérstaklega góð laun við hvalveiðar um langt árabil benda til þess að fyrirtækið hafi að jafnaði góðar tekjur af veiðunum.. Gleymum því ekki að um árabil hefur verið kallað á bann við hvalveiðum þar sem þær myndu skaða aðrar atvinnugreinar, einkum ferðamennsku. Þær staðhæfingarnar hafa reynst algerlega rangar og þessa dagana er miklu fremur kallað á opinberar aðgerðir til þess að draga úr umsvifum ferðþjónustunnar.