Hrafnseyri

Bær og kirkjustaður og fyrrum prestsetur í Auðkúluhreppi við norðanverðan Arnarfjörð. Bærinn stendur allhátt í hvammi, svo að útsýni er þaðan lítil, nema yfir fjörðinn. Núverandi kirkja á Hrafnseyri var vígð 28. febrúar 1886. Hún er byggð úr timbri og járnvarin. Kirkjan hefur tvisvar fokið af grunni, en í hvorugt skiptið laskaðist hún neitt að ráði og var sett aftur á grunninn. Hrafnseyri er kennd við Hrafn Sveinbjarnarson, eitt af göfuglyndustu og mestu stórmennum Íslands á seinni hluta 12. aldar og fyrstu árum hinnar 13. Hann er talinn hafa verið fyrsti menntaði læknir hérlendis, lærður bartskeri frá Salerno á Ítalíu.

Í Hrafnseyrartúni vottar fyrir kirkjugarði og gamalli kirkjutótt, sem er talin vera frá því á Sturlungaöld. Þessar minjar eru friðlýstar. Jón Sigurðsson forseti (1811-1879) fæddist á Hrafnseyri. Fæðingardagur hans er 17. júni, þjóðhátíðardagur Íslendinga. Hann á sér einstakan sess í sögu þjóðfrelsisbaráttunnar og var frábær leiðtogi á þeim vettvangi. Hann hefur verið nefndur „óskabarn Íslands, sómi þess, sverð og skjöldur”. Hann var þingmaður Ísfirðinga 1845, þegar endurreist Alþingi kom saman í fyrsta sinn í Reykjavík og síðan til æviloka. Hann varð fyrst forseti Alþingis árið 1849 og flest þing eftir það. Hús Jóns Sigurðssonar er í Kaupmannahöfn (Islands Kulturhus) í Øster Voldgade 12. Þar bjó Jón frá 1852 til dauðadags 1879.

Stytta Jóns eftir Einar Jónsson myndhöggvara er á Austurvelli í Reykjavík. Jóni var reistur bautasteinn á Hrafnseyri árið 1911. Í hann er greyptur eirskjöldur með andlitsmynd Jóns eftir Einar Jónsson. Safnið var opnað og kapellan vígð á Hrafnseyrarhátíð hinn 3. ágúst 1980 og var þá minnst 100. ártíðar Jóns Sigurðssonar. Séra Böðvar Bjarnason, sem var prestur á Hrafnseyri á árunum 1901-1941, ritaði sögu staðarins, Hrafnseyri (1961).

Af vefsíðunni is.nat.is

DEILA