Fornminjadagur á Hrafnseyri

Frá uppgreftrinum á Auðkúlu. Ljósmynd: Margrét Hrönn Hallmundsdóttir.

Laugardaginn 19. ágúst verður haldinn fornminjadagur á Hrafnseyri við Arnarfjörð. Dagurinn hefst á kynningu Margrétar Hrannar Hallmundsdóttur, fornleifafræðings hjá Náttúrustofu Vestfjarða um rannsókninna „Arnarfjörður á miðöldum. Rannsóknin hefur staðið yfir frá árinu 2011 á vegum Náttúrustofu Vestfjarða. Að kynningu lokinni verður boðið í stutta vettvangsgöngu um Hrafnseyri og að lokum farið yfir á Auðkúlu.

Á undanförnum árum hafa fundist afar merkilegar fornminjar á Hrafnseyri, bæði frá landnámi og miðöldum. Má þar nefna skála og jarðhýsi frá landnámsöld auk merkilegra minja frá miðöldum á borð við jarðgöng. Á næsta bæ við Hrafnseyri, Auðkúlu í Auðkúluhreppi, hafa staðið yfir rannsóknir á landnámsbýli frá árinu 2015. Uppgröftur stendur yfir á svæðinu í sumar og verður boðið upp á leiðsögn um svæðið í lok dags. Þá er ótalinn nýjasti hluti verkefnisins sem er rannsókn á sextándualdarbýlinu Skjaldfönn í botni Borgarfjarðar í Arnarfirði. Einnig verður sagt frá þeim fjölbreyttu aðferðum sem notaðar eru við rannsóknina, allt frá hefðbundinni fornleifafræði yfir í hátækni fjarkönnunarbúnaðar.

Kynningin fer fram í kapellunni á Hrafnseyri en að henni lokinni verður einnig boðið upp á stutt vettvangsrölt á Hrafnseyri. Þá verður áhugasömum einnig boðið að slást í för með Margréti að Auðkúlu, sem er næsti bær við Hrafnseyri, en þar stendur yfir uppgröftur þessa dagana á landnámsbýli.

Það verður opið á kaffihúsinu í burstabænum, heitt á könnunni og vöflujárnið skíðlogandi.

Dagskráin er þrískipt og velkomið að taka þátt í öllum liðum hennar eða velja sér hluta.

Dagskrá:

13:00 Kynning á rannsókninni Arnarfjörður á miðöldum

14:00 Kaffihlé og spjall

14:30 Vettvangsrölt um Hrafnseyri

15:00 Vettvangsferð að Auðkúlu

Athugið að gestir þurfa sjálfir að koma sér yfir að Auðkúlu sem er í 10 mínútna akstursfjarlægð. Athugið að til að aka alla leið að uppgreftrinum þarf að fara yfir litla á. Einnig er hægt að leggja við ánna og ganga að staðnum.

DEILA