Ferðafélag Ísfirðinga : Kistufell á Seljalandsdal – 2 skór

Laugardaginn 26. ágúst

Fararstjóri: Magnús Ingi Jónsson

Lagt af stað frá virkjunarhúsi Reiðhjallavirkjunar í Syðridal kl. 10:00. Af Kistufelli er tignarlegt útsýni yfir Bolungarvík, Hnífsdal, Skutulsfjörð og Súgandafjörð.                  

Gangan byrjar í 30 m. hæð og hæsti punktur er 785 m. yfir sjó. Hækkun er því um 750 metrar en 95% leiðarinnar er á vegslóða. Gangan er rétt tæpir 12 km og áætlaður göngutími er 5-6 klst. með stoppi.

Yfir norðurhlíð Botnsdals er röð af fjöllum og hvilftum. Þar er fremst Svarthamrahorn og liggur að Gyltuskarði. Fjallið ber nafn með réttu því svartir hamrar neðan við brúnina setja á það sinn sterka svip. Svarthamrahorn er hæsta fjall í Súgandafirði en varðan sem landmælingamenn reistu á kolli þess er í 781 metra hæð yfir sjávarmáli. Kollur Svarthamrahornsins stendur á mörkum þriggja fornra hreppa, Suðureyrarhrepps, Eyrarhrepps og Hólshrepps. Sé horft á bakhlið þessa sama fjalls frá Ísafjarðarkaupstað eða öðrum stöðum í Skutulsfirði hefur það allt annan svip og heitir öðru nafni. Það nafn er Kistufell sem skýrist af því að séð frá Skutulsfirði er þetta klettalaust fell og stendur rétt hjá fjallinu Kistu sem er kistulaga.

Það er alveg tilvalið að nýta laugardaginn til þess að ganga á Kistufell en fararstjórinn er þaulkunnugur á þessu svæði.

DEILA