Endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar: 30 tillögur kynntar

Lokaniðurstöður fjögurra starfshópa Auðlindarinnar okkar voru kynntar í gær. Um er að ræða starf á vegum Matvælaráðherra. Í skýrslunni, sem eru 464 bls., eru sett fram drög að stefnu um sjávarútveg, greining á niðurstöðum könnunar um viðhorf Íslendinga til sjávarútvegs birt og mat á þjóðhagslegum ávinningi fiskveiðistjórnunarkerfisins sett fram. Á grundvelli tillagna starfshópanna er sett fram tillaga að aðgerðaáætlun, þar sem lýst er markmiðum aðgerða, ábyrgðaraðila og tímamörkum.

Vinnan sem unnin hefur verið með Auðlindinni okkar er mikilvægt skref til að skapa skilyrði til aukinnar sáttar um sjávarútveg. Hagsmunir almennings eru settir í forgrunn og endurspeglast til dæmis í sterkum umhverfisáherslum og tillögum um aukið gagnsæi og hækkun veiðigjalda í samræmi við fjármálaáætlun“, segir Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra.

Skýrslan hefur verið birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Hægt er að senda inn umsagnir eða ábendingar til og með 26. september nk.

Innsendar umsagnir og athugasemdir verða hafðar til hliðsjónar við vinnslu frumvarps til heildarlaga um nýtingu og stjórnun nytjastofna sjávar sem áformað er að verði lagt fram á Alþingi vorið 2024.

Helstu 30 tillögur skýrslunnar eru dregnar fram og eru m.a. þessar:

Vernda 30% hafsvæða fyrir 2030 með skýrri stefnu í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.

Lögfest verði í stjórnarskrá ákvæði um fiskveiðiauðlindina sem sameign þjóðarinnar.

Aflamarkskerfinu verði viðhaldið.

Skilgreining á yfirráðum í reglum um hámarks aflahlutdeild verði samræmd við samkeppnislög og skilgreining tengdra aðila útvíkkuð svo að annarskonar eignartengsl en yfirráð falli líka undir skilgreininguna að ákveðnu leyti.

Öll viðskipti með aflaheimildir verði háð skráningu í miðlægt kerfi og að grunnupplýsingar um einstök viðskipti verði birtar opinberlega, þ.m.t. hvernig aflaheimildir eru metnar til verðs.

Tillaga um tilraun með leigu aflahlutdeildar á markað fari í samráð, m.a. með hliðsjón af reynslu erlendis af uppboðum aflaheimilda.

Almennur byggðakvóti verði lagður niður. Þær veiðiheimildir sem við það verða til ráðstöfunar verði áfram í byggðakerfinu en leigðar út. Þau auknu verðmæti sem við það skapast fari til sveitarfélaga í sjávarbyggðum, annað hvort með beinum hætti eða í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sem nýti þau til uppbyggingar á sjálfbærum atvinnurekstri og samfélagslegum innviðum.

Strandveiðum verði viðhaldið að mestu með óbreyttum hætti en kveðið verði skýrar á um markmið, árangursmælingar og aðgengi til þess að ná betur fram upphaflegum markmiðum kerfisins.

Línuívilnun og skel- og rækjubótum verði hætt og ráðstafað til byggðakerfisins, annað hvort í gegnum innviðaleið, þ.e. með útleigu á heimildum þar sem leigutekjur renni til sveitarfélaga, eða byggðafestuleið, þ.e. með sértækum og markvissum aðgerðum til að nýta veiðiheimildir til að efla byggðir þar sem veiðar og vinnsla eru talin eiga framtíð fyrir sér.

DEILA