Ekkert að gera nema kíkja í bókabúðina?

,,Fátt annað að gera en að kíkja bara inn í bókabúðina” sagði sérfræðingurinn í efnahags- og ferðaþjónustumálum í vikulegu útvarpsviðtali talandi um þær tugþúsundir ferðamanna sem koma í land af skemmtiferðaskipum á Ísafirði yfir sumarmánuðina.

Veit hann svona lítið eða vill hann ekkert vita? Það er synd því maðurinn ritstýrir einum stærsta fréttamiðli landsins.

En hvað hefur þá allt þetta fólk fyrir stafni á stað svona óralangt frá Suðurlandinu og höfuðstaðnum okkar litla, sæta og skemmtilega?

Eins og sést á myndum rölta margir bara um bæinn sem má líkja við lifandi safn um íslenskan arkitektúr og skipulagssögu. Þeir skoða listasafnið og bókasafnið þar sem finna má bækur og blöð á mörgum tungumálum. Þeir skoða Hversdagssafnið, Sjóminjasafnið, galleríin og handverksbúðirnar (engar lundabúðir hér). Sumir fá leiðsögn um bæinn, aðrir fara um á eigin vegum, ganga jafnvel upp í fjall og drekka úr lækjum og einhverjir liggja á gluggum íbúunum til nokkurs ama. Það má vel vera að þetta fólk kíki líka í bókabúðina.

Margir borða hádegismat á veitingastað sem þekktur er fyrir gómsæta fiskrétti sem eldaðir eru úr fyrirtaks hráefni, aðrir drekka bjór á bruggfabrikku staðarins og sumir fá sér vegan-mat og gott kaffi á besta kaffihúsi bæjarins. Ekki víst að allir hafi þrek til að kíkja í bókabúðina á eftir.

Nokkrir róa á kajak um Pollinn og komast þannig í meiri nálægð við fjölbreytt fuglalíf fjarðarins. Aðrir klæða sig í galla og stíga um borð í gúmmíbáta sem fara með þá um Ísafjarðardjúp til að skoða hvali. Og einhverjir stíga upp á hjól og æða upp um fjöll. Kannski gleyma þeir bókabúðinni þegar þeir koma til baka.

Mjög margir fara á bátum til að skoða eyjuna Vigur þar sem lundinn er óhræddur við fólk og leyfir því að skoða á sér gogginn af stuttu færi. Þar fá þeir líka að fræðast um æðarfuglinn og samvinnu manna og dýra þar sem maðurinn verndar fuglinn og fær í staðinn verðmætan æðardúninn. Einstaka kaupir sér rándýra sæng. Fimmti stærsti jökull landsins blasir við af bátnum, sá eini undir þúsund metrum. Bókabúðin bíður eftir þeim þegar þeir koma til baka úr sjóferðinni.

Hesteyri í friðlandi Hornstranda og Jökufjarða er líka vinsæl. Bátsferðin er upplifun ein og sér þar sem oft sjást hvalir í matarkistu Ísafjarðardjúps og fuglalífið er margbrotið. Saga Hesteyrarþorpsins og fólksins sem þurfti að hörfa þaðan fyrir um sextíu árum vekur upp kenndir og friðsæld staðarins heillar. Svo er ágætt að kíkja bara í bókabúðina áður en gengið er til skips á nýjan leik.

Sumir stíga strax upp í rútu með leiðsögumanni og bruna í Arnarfjörðinn til að ganga upp með öllum litlum fossunum við Dynjanda. Skoða síðan safnið á Hrafnseyri og njóta veitinga og náttúrufegurðar fjarðarins. Bókabúðin er á sínum stað þegar þeir koma til baka úr ferðinni.

Aðrir fara í rútu í Dýrafjörðinn og skoða ,,vestfirsku alpana’’  og Skrúð sem allri skrúðgarðar á Íslandi heita eftir. Heimsókn í bókabúðina er vel við hæfi ef tími gefst til.

Enn aðrir heimsækja Flateyri og heyra um snjóflóðin og áhrif þeirra á líf fólksins. Þar kíkja allir í gömlu bókabúðina sem er elsta starfandi verslun á Íslandi.

Valagil í Álftafirði er enn einn áfangastaðurinn þar sem gestirnir fá göngutúr og leiðsögn og skoða Súðavík í leiðinni og heyra um snjóflóðin og lífið á þeim fallega stað þar sem árstíðirnar eru svo margbreytilegar og menn hafa lært að bera virðingu fyrir náttúrunni, varast ógnirnar og þakka það sem hún gefur. Ágætt að kíkja í bókabúðina og leita að fallegu myndefni í lok ferðar.

Ósvör, látlausa safnið í Bolungarvík um sögu árabátaútgerðar á Íslandi er mjög vinsæll meðal farþega skemmtiferðaskipanna og útsýnið af Bolafjalli magnað þar sem með góðum vilja má sjá birtuna af Grænlandsjökli á góðviðrisdögum. Við bætist svo heimsókn í Hólskirkju þar sem ungt tónlistarfólk tekur á móti gestum, fræðir um og flytur fallega íslenska tónlist. Ekki víst að þetta fólk muni eftir bókabúðinni á bakaleiðinni.

Margir fara í skoðunarferð til Suðureyrar, sjávarþorpsins þar sem þeir fá að heimsækja fiskverkun og sjá hvernig fiskurinn er veiddur og unninn, bragða á vel matreiddum sjávarréttum og heyra um líf fólksins á þessum stað við sjávarsíðuna. Ef þeir hafa tíma kíkja þeir kannski bara í bókabúðina á leið til skips.

Sumir setjast á bekk eða bara á stein í fjöruborðinu, horfa yfir spegilsléttan fjörðinn og fegurð fjallanna. Þeir sleppa því kannski með öllu að kíkja í bókabúðina.

Ég er eflaust að gleyma einhverju enda bara almennur bæjarbúi.

Það má ýmislegt segja um allar þessar heimsóknir skemmtiferðaskipa, sjónmengun, loftmengun og hvernig skipafélögin draga megnið af tekjunum til sín. En það er ekki hægt að halda því fram að viðskiptajöfrarnir sem reka þessi fyrirtæki setji fólk í tugþúsundavís á land á einhverjum stað þar sem ekkert er við að vera. Óþarfi að hafa um það fleiri orð að sinni.

EG

DEILA