Bolungavík: innsiglingin ekki dýpkuð

Frá Bolungavíkurhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Verðfyrirspurn um dýpkun innsiglingarinnar í Bolungavíkurhöfn leiddi í ljós að verðið er of hátt að mati Vegagerðarinnar. Tilboð barst frá Rafsta, norsku fyrirtæki sem vinnur fyrir Arctic Fish að því að koma í sjó sjóinntökulögn og útrás í nýja sláturhúsinu á Brjótnum. Samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta var tilboðið um 150 m.kr.

Tilboðið var lagt fram í bæjarráði til kynningar. Kristján Jón Guðmundsson lét bóka að gengið yrði til samninga á grunni tilboðsins.

Kristján Jón sagði í samtali við Bæjarins besta að hann teldi ekki fullreynt að unnt yrði að ná samkomulagi við Vegagerðina og norska fyrirtækið og því hefði hann bókað þessa afstöðu sína.

Hann sagði að dýpkun innsiglingarinnar hefði verið lengi á dagskrá og m.a. hefði verið ætlun Vegagerðarinnar að fara í hana í framhaldi af gerð sandfangara sem kominn er en það hefði ekki enn gengið eftir. Kristján Jón segir að þessi framkvæmd sé ekki í drögum að nýrri samgönguáætlun 2024-38 sem er í kynningu. Mikil þörf væri á umræddri framkvæmd bæði fyrir laxeldið og fiskiskip. Það væri lífsspursmál fyrir bæjarfélagið að geta boðið upp á örugga innsiglingu.

DEILA