Axel Eiríksson úrsmiður verður á Hlíf

Axel Eiríksson, úrsmiður , sem lengi var með verslun og verkstæði á Ísafirði, mun kíkja á, lagfæra eins og kostur er og smyrja og stilla klukkur,þó ekki ekki armbandsúr á Hlíf á Ísafirði. Allir eru velkomnir að líta til hans til skrafs og ráðagerða. 

Tildrögin eru að Þröstur heitinn Marsellíusson var á ferðinni fyrir sunnan. Hann leitaði til Axels og bað hann um að kíkja á klukku sína. „Við þekktumst frá fyrri tíð en hann var góður viðskiptavinur minn er ég rak um áratugaskeið verkstæði og verslun á Ísafirði ásamt mínu góða starfsfólki.“

Axel segir að þeir hafi spjallað saman um gamla daga og nýja og kom þá í ljós að sárlega vantaði klukkuþjónustu í bænum. „Ég sagði honum að ég myndi hafa ánægju af að koma til Ísafjarðar og kíkja á klukkur íbúanna á Hlíf og kæmi þá með viðgerða klukkuna hans í leiðinni.“

Axel verður á Hlíf dagana 11. og 12. ágúst frá kl. 10:00 til 16:00 og bíður íbúum Hlífar og öðrum íbúum bæjarins upp á að skoða klukkur, lagfæra eins og hægt er og smyrja án endurgjalds. „Forstöðumaður Hlífar er svo vænn að veita mér aðstöðu til þessa verkefnis“ segir Axel.

„Árið 1973 festi ég kaup á úrsmíðaverkstæði og verslun af dánarbúi Arne Sörensen sem ég rak í rúmlega 20 ár. Það voru góð ár og gefandi. Stundum fer lífið öðruvísi en ætlað er. Ég er á  leið með viðgerða klukkuna hans Þrastar heitins og hann farinn í ferðina miklu á öðru tímabelti.“

DEILA