Atvinnutekjur íbúa á Vestfjörðum af fiskeldi um 2,1 milljarður í fyrra

Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands um staðgreiðsluskyldar launagreiðslur hefur fjöldi starfandi við fiskeldi tæplega fjórfaldast á tímabilinu 2010-2022 og atvinnutekjur, á verðlagi ársins 2022, ríflega sexfaldast.

Í fyrra voru atvinnutekjur íbúa á Vestfjörðum af fiskeldi um 2,1 milljarður króna samanborið við 120 milljónir á árinu 2010, á verðlagi ársins 2022. Það þýðir að þær hafi ríflega sautjánfaldast að raunvirði á tímabilinu. 

Fiskeldi er ein af fáum atvinnugreinum sem er umfangsmeiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, en um 80% af atvinnutekjum í greininni koma í hlut einstaklinga sem búa á landsbyggðinni, þar af um þriðjungur í hlut einstaklinga sem búa á Vestfjörðum.

Vestfirðir eru til að mynda eini landshlutinn þar sem atvinnutekjur af fiskeldi hafa verið umfram samsettar atvinnutekjur greina innan ferðaþjónustunnar á undanförnum árum, eða frá og með árinu 2019.

Sé tekið mið af fyrstu 5 mánuðum ársins stóð fiskeldi eitt og sér undir 8,1% atvinnutekna íbúa á Vestfjörðum en einungis um 0,1% á höfuðborgarsvæðinu.

Munurinn er misjafn eftir sveitarfélögum. Þannig mátti rekja 38% atvinnutekna íbúa í Tálknafjarðarhreppi til fiskeldis á fyrstu 5 mánuðum ársins 

DEILA