Arnarlax í íslensku kauphöllina

Icelandic Salmon, móðurfyrirtæki Arnarlax hefur hafið undirbúninga að skráningu fyrirtækisins á hlutabréfamarkað í íslensku kauphöllinni síðar á þessu ári. Fyrirtækið er þegar skráð á Euronext Growth markaðinn í Noregi. Með þessu er bætt aðgengi innlendra fjárfesta að fyrirtækinu. Lífeyrissjóðir eru umsvifamiklir á hlutabréfamarkaði og hafa nokkrir þeirra þegar fjárfest í innlendu laxeldi.

Fyrr í mánuðinum gekk Arnarlax frá samkomulagi við Arionbanka, DNB og Danske bank um lánafyrirgreiðslu sem tryggir fyrirtækinu aðgang að lánsfjármagni allt að 100 milljónir evra á góðum kjörum.

Björn Hembre, forstjóri Arnarlax segir í yfirlýsingu að samkomulagið, sem tengir saman sjálfbærni eldisins og lánskjörin, sé mikilvægt fyrir fyrirtækið sem er í uppbyggingu og hann hlakki til að kynna það fyrir innlendum fjárfestum.

Í morgun var birt fjárhagsuppgjör fyrri hluta ársins. Tekjur Arnarlax fyrstu 6 mánuðina voru um 10 milljarðar króna og hagnaður af rekstri rúmir 2 milljarðar króna. Framlegð á hvert slátrað kg var um 330 kr.

Mikil fjárfesting hefur verið í tækjum og búnaði. Í fyrra var fjárfest í auknu seiðaeldi og á þessu ári hafa verið keyptir tveir brunnbátar sem hvor um sig bera 900 tonn af fóðri.

Búist er við að slátrað verði 16 þúsund tonnum af eldislaxi á þessu ári.

Markaðsvirði Icelandic Salmon í norsku kauphöllinni er um 65 milljarðar ísl. króna.

DEILA