Arctic Fish: Shiran á förum

Neil Shiran Þórisson, fjármálastjóri Arctic Fish hefur ákveðið að láta af störfum á næstunni. Hann staðfesti þetta í samtali við Bæjarins besta. Shiran sagðist myndu vera í starfi næstu sex nánuði og skila starfi sínu í hendur næsta fjármálastjóra.

Í frétt um málið á norska vefnum Intra Fish fyrir helgina færir Stein Ove Tveiten , forstjóri Arctic Fish Shiran þakkir fyrir vel unnin störf og óskar honum velfarnaðar í framtíðarstörfum hans.

Að sögn Shiran er komið að tímamótum og rétti tíminn til þess að huga að öðrum verkefnum. Nýlega er lokið 25 milljarða króna endurfjármögnum félagsins með sambankaláni DNB, Danske Bank, Nordea og Rabobank. Um er að ræða lánasamning til þriggja ára með möguleika á framlengingu. Fjármagnið verður notað til uppgreiðslu núverandi lána og fjármögnunar áframhaldandi vexti félagsins. Lánið er tengt sjálfbærnimarkmiðum og árangri félagsins á því sviði. Neil Shiran sagði þá að sambankalánið muni hafa jákvæð áhrif á vaxtakjör til framtíðar og veita mikla hvatningu til áframhaldandi góðra verka sem félagið ætli sér að standa undir.

Shiran tók þátt í hlutafjáraukningu í Arctic Fish fyrir nokkrum árum en seldi megnið af sínum hlutabréfum fyrir rúmu ári fyrir liðlega 400 milljónir króna að því er fram kom í tilkynningu til norsku kauphallarinnar.

DEILA