Andlát: Sigríður Ragnarsdóttir fyrrverandi skólastjóri Tónlistarskóla Ísafjarðar

Sigríður Ragnarsdóttir fyrrv. skólastjóri Tónís.

Sigríður Ragnarsdóttir, tónlistarmaður og skólastjóri Tónlistarskóla Ísafjarðar um þrjátíu ára skeið lést á krabbameinsdeild Landspítalans að morgni 27. ágúst.

Sigríður Ragnarsdóttir fæddist 31. október 1949 á Ísafirði. Hún lagði stund á píanóleik frá unga aldri hjá föður sínum, Ragnari H. Ragnar við Tónlistarskóla Ísafjarðar, og hélt tónlistarnáminu áfram við Tónlistarskólann í Reykjavík jafnframt því að stunda nám við Menntaskólann í Reykjavík. Að loknu stúdentsprófi hélt hún til Bandaríkjanna til náms í tónlistargreinum og fornmálum við Lindenwood University í Missouri og lauk þaðan BA-prófi vorið 1971. Á árunum 1976-1978 dvaldi Sigríður í München þar sem hún sótti tíma í tónvísindum og fornmálum við Ludwig-Maximilian-háskólann. Sigríður lagði stund á meistaranám í menningarstjórnun við Viðskiptaháskólann á Bifröst á árunum 2004-2006 jafnframt því að vera gestanemandi við Listkennsludeild Listaháskóla Íslands. Árið 2018 lauk hún námi í svæðisleiðsögn um Vestfirði.

Sigríður tók virkan þátt í fjölbreyttum tónlistarstörfum á Vestfjörðum um áratuga skeið. Hún starfaði fyrst sem píanókennari við Tónlistarskóla Ísafjarðar og varð skólastjóri sama skóla 1984 og gegndi því til starfi til 2017. Hún var um áratuga skeið undirleikari Sunnukórsins á Ísafirði og kom fram með kórnum á ótal tónleikum og uppákomum, og lék inn á hljóðritanir. Þá starfaði hún með ýmsum fleiri kórum, einsöngvurum og hljóðfæraleikurum, m.a. með Kammersveit Vestfjarða, sem starfaði á Ísafirði og Bolungarvík um langt árabil. Sigríður var einnig virk í tónlistarstarfi kirkna fyrir vestan, hún var organisti við Ísafjarðarkirkju um þriggja ára skeið og organisti Súðavíkurkirkju í tólf ár.

Sigríður átti virka aðild að mörgum stórum menningarverkefnum á Vestfjörðum. Má þar nefna tónleikaröðina Sumar í Hömrum, Sumarsólstöðuhátíð, og ekki síst tónlistahátíðina Við Djúpið, sem var lengi árviss viðburður á Ísafirði. Þá stóð hún að uppfærslum nokkurra stórra kórverka á borð við Messías og Sálumessu Mozarts og uppfærslum á söngleikjunum Oliver! og Söngvaseið. Hún var einnig mjög virk í Styrktarfélagi til byggingar tónlistarhúss á Ísafirði og tók þar þátt í margs kyns uppákomum, kabarettum, torgsölum o.s.frv.

Sigríður var alla tíð mjög virk í félagsstörfum, sat m.a. í stjórn Neytendafélags Vestfjarða, Krabbameinsfélagsins Sigurvonar, Óperu Vestfjarða og Delta Kappa Gamma, félagi kvenna í fræðslustörfum. Sigríður var einn af stofnendum Kvennaframboðsins og Kvennalistans og var margsinnis í framboði fyrir Kvennalistann á Vestfjörðum, bæði í lands- og sveitarstjórnarkosningum. Hún gekk síðar til liðs við Samfylkinguna og sat um tíma sem varaþingmaður fyrir Vestfjarðakjördæmi.

Sumarið 2008 var Sigríður sæmd riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín að tónlistarmenntun, og sama haust var hún útnefnd bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar. Þá var henni vorið 2022 veitt heiðursviðurkenning Tónlistarskóla Ísafjarðar fyrir brautryðjendastörf í menningarmálum Ísafjarðar og glæsilega skólastjóratíð.

Eftirlifandi eiginmaður Sigríðar er Jónas Tómasson, tónskáld, og lætur hún eftir sig þrjú uppkomin börn.

DEILA