Elsta leiklistarhátíð á Íslandi verður haldin í einleikjaþorpinu Suðureyri 10. – 12. ágúst. Um 20 einstakir viðburðir og ókeypis á allt. Act alone var fyrst haldin árið 2004 á Ísafirði, árið 2012 flutti hátíðin búferlum í næsta fjörð á Suðureyri og hefur verið haldin þar síðan. Það hefur ekki eitt einasta ár dottið út í sögu hátíðarinnar því hún var meira að segja haldin í heimsfaraldri og þá vitanlega á allt annan hátt en venjulega. Act alone er hátíð sem á fáa sína líka hér á landi og jafnvel víðar. Actið er helgað eins manns listinni og þar er allt undir allt frá leiksýningum til tónleika og myndlistarsýninga. Eina reglan er að einn listamaður komi fram hverju sinni.
Það er óhætt að segja að dagskrá Act alone í ár sé einstaklega fjölbreytt. Eitthvað fyrir alla. Leiksýningar, tónleikar, myndlistarsýning, einstaklega vegleg barnadagskrá og blöðrunámskeið með Blaðraranum. Meðal listamanna sem koma fram á Actinu í ár má nefna hinn vestfirska Helga Björns, argentísku strengjabrúðuleikkonuna Sol, Stefán Ingvar, Hjördís Frímann verður með myndlistarsýningu, Lalli töframaður töfrar okkur uppúr skónum og það gjörir líka Króatíska óperusöngkonan Paulina. Margt fleira einleikið mætti nefna en það er alveg næsta víst að þetta verður alveg einstakt og einleikið.
Það verður ekki bara frítt á Actið heldur einnig ókeypis far í einleikjaþorpið. Langferðabifreið Actsins gengur daglega millum Ísafjarðar og Suðureyrar. Ökutollur núll krónur.
Heimasíða Act alone www.actalone.net