Sigurvon þakkar fyrir sig með sumarhátíð

Krababmeinsfélagið Sigurvon efnir til fjölskylduhátíðar á Eyrartúni á Ísafirði kl. 17:00 á fimmtudaginn 20. júlí. Sumarhátíðin er smá uppskeruhátið fyrir stjórn, félagsmenn og þá sem hafa tilheyrt Hreyfihópi Sigurvonar í sumar. Stjórn félagsins vill þakka velunnurum félagsins fyrir ómetanlegan stuðning í gegnum árin með þessari hátíð.

Hreyfihópur Sigurvonar hefur verið starfandi í allt sumar. Æfingar hafa verið á mánudögum og miðvikudögum undir stjórn þjálfara og hafa æfingar gengið mjög vel. Þar hefur fólk getað gengið og/eða hlaupið og hafa æfingarnar endað með styrktaræfingum. Í anda hreyfihóps Sigurvonar byrjar sumarhátíðin á hreyfingu. Þeir sem vilja taka þátt í henni þurfa að vera mættir á Eyrartún klukkan 17:00 þar sem verður farinn c.a. 2 km hringur á Ísafirði, gangandi eða hlaupandi, undir styrkri stjórn Árna Heiðars Ívarssonar, þjálfara Hreyfihópsins. Ítrekað er að þennan hring fara allir á sínum hraða og verður einnig í boði að fara styttri hring fyrir þá sem það vilja.

Þegar allir eru komnir til baka hefst sumarhátíðin og þar verður leikin tónlist, hoppikastalar og grillaðar pylsur m.a. Það eru allir velkomnir á þennan viðburð og er engin skylda að taka þátt í hreyfingunni. Stjórn Sigurvonar vonast svo sannarlega til að sjá sem flesta á fimmtudaginn. Ekkert aðgangsgjald er á hátíðina og þarf aðeins að mæta þangað með góða skapið.   

Allir velkomnir og ekkert aðgangsgjald. Með þessu vilja aðstandendur krabbameinsfélagsins þakka þann hlýhug og velvilja sem samfélagið hefur sýnt þeim um leið og þeir hvetja til hreyfingar og skemmtunar fyrir alla fjölskylduna

DEILA