Minning: Sigurður Markússon

f. 1.nóv. 1927 – d. 27. júní 2023.

               Sigurður Breiðfjörð Markússon fæddist á Sæbóli í Aðalvík í Sléttuhreppi 1. nóvember 1927.  Foreldrar hans voru hjónin Markús Kristján Finnbjörnsson útvegsbóndi frá Hnífsdal og Herborg Árnadóttir húsfreyja frá Skáladal í Sléttuhreppi.  Sigurður andaðist 27. júní 2023.

               Sigurður var fagottleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands 1958 til 1992.

               Sinfóníuhljómsveitin var stofnuð árið 1950.  Jónas frá Hriflu lét þá svo ummælt, að nú vildi Jón Þórarinsson skipa 50 embættismenn til þess að syngja fyrir þjóðina.

Auk þess að veita leiðsögn á hljóðfæri sitt við Tónlistarskólann í Reykjavík – (afinn í “Pétri og úlfinum” er leikinn á þessa stóru, hreimfögru og rómsterku hljóðpípu, sbr. og upphafið að “Vorblóti” Stravinskys) – kenndi Sigurður Markússon þá námsgrein, sem á íslensku hefur verið nefnd tónheyrn eða heyrnarþjálfun, á erlendu máli acoustics og dregið af gríska sagnorðinu “akouó” sem þýðir “ég heyri”.

Kennslan fór þannig fram, að nemendum var gert að greina bilið milli tveggja tóna, sem leiknir voru á píanó, hvort hreint væri, stórt eða lítið, stækkað eða minnkað sem svo er  kallað í tónfræðinni.   Stundum skyldu þeir rita með nótum upp á blað dálítinn bút úr lagi,  sem þeir heyrðu spilaðan. Af lengra komnum var til þess ætlast, að þeir rauluðu fyrir munni sér tóntegundarlausa (atonal) laglínu og reyndist ýmsum þungsótt, sem vonlegt var, einkum framan af.  Þá bar og ósjaldan við, að kennarinn bankaði tiltekinn hryn í borðplötuna og áttu nemar að skrifa þetta upp hjá sér.

Greinarhöfundur var ekki með öllu óvanur síðastnefndu þrautinni.           Þegar hann var púki, eins og sagt er fyrir vestan, leiddi faðir hans hann oft við hönd  sér um götur bæjarins.  Fóru þeir feðgar þá stundum í “að-kreista-höndina” leikinn, en hann fólst í því að faðirinn þrýsti hönd sonar síns í einhverjum ákveðnum rytma, sem sá stutti reyndi að leika eftir við  höndina á honum.  Komu þar fyrir makalausar synkópur og flóknar, óvægnar punkteringar, dögum oftar dúólur ellegar jafnvel bundið yfir taktstrik.  Höfðu þeir ómælda ánægju af þessu.  Aftur þótti drengnum gamanið taka að kárna, þegar faðir hans tók að raula fyrir munni sér laglínur, í nægum tónstyrk til þess að vegfarendur, sem þeir mættu,  komust ekki hjá að heyra.  Hylltist hann þá til þess að fara yfir á hina gangstéttina og halda þar áfram ferðinni;  þóttist ekki þekkja föður sinn, en hafði þó  gætur á honum útundan sér.

Vorið 1967 luku einleiksprófi frá Tónlistarskólanum Guðný  fiðluleikari, dóttir Guðmundar Matthíassonar kennara og organista, Anna Áslaug  píanóleikari, dóttir Ragnars H. Ragnar, tónlistarfrömuðar og skólastjóra á Ísafirði, og sá sem hér potar í lyklaborð, knéfiðluleikari, sonur Björns R. Einarssonar, 1. básúnista Sinfóníuhljómsveitar Íslands.  Þessi þrjú sóttu tíma hjá Sigurði Markússyni.  Stúlkunum gekk námið skafið, enda voru þær búnar “absolút heyrn”, þeim sjaldgæfa eiginleika að geyma í minni sér kórrétta tíðni hljóðalda hvers tóns á sekúndu, þegar miðað er t.d. við einstrikað A (Hz440).  Þeir, sem eru þessarar náttúru þurfa ekki tónkvíslar við.

Sigurður Markússon var afbragðskennari, samviskusamur og nákvæmur í hvítetna; kunni vel að greina á milli aðalatriða og aukaatriða, en vissi jafnframt, að í tónlist eru engin aukaatriði.  Hann hafði fullkomið vald á kennsluefninu, hafði enda sjálfur numið við virta tónlistarháskóla erlendis.  Hann var snyrtimenni fram í fingurgóma og viðbrigðaprúður í framgöngu, greindur, alþýðlegur og laus við uppskafningshátt.  Naut hann óskoraðra vinsælda nemenda sina.  Hans er minnst með gleði, virðingu og þökk.

Guð blessi minningu drengsins góða, Sigurðar Breiðfjörð Markússonar.

                                                                          Gunnar Björnsson,

                                                                          pastor emeritus.

DEILA