MERKIR ÍSLENDINGAR – ÞURÍÐUR GÍSLADÓTTIR

Þuríður Gísladóttir fæddist á Gljúfurá í Arnarfirði þann 6. júlí 1925.

Foreldrar hennar voru Gísli Vignir Vagnsson, f. 3. ágúst 1901 í Fjarðarhorni, Gufudalshr., Austur-Barð., d. 4. október 1980, bóndi á Mýrum í Dýrafirði, og kona hans Guðrún Sigríður Jónsdóttir, f. 17. maí 1895 í Sauðeyjum á Breiðafirði, d. 7. október 1975.

Systkini Þuríðar:
Einar Andrés, f. 1924, Sigurbjörg Árndís, f. 1927, Una, f. 1928, Álfheiður, f. 1929, Jón Höskuldur, f. 1932, Valdimar Haukur, f. 1934, Bergsveinn Jóhann, f. 1938, Davíð, f. 1941.

Uppeldisbróðir og frændi: Pétur Kristinn Þórarinsson, f. 1922.

Barnsfaðir: Ágúst Steindórsson, f. 6. september 1925 í Ási, Hrunamannahr., d. 29. nóvember 2006. Foreldrar hans: Steindór Eiríksson, bóndi í Ási, og kona hans Guðrún Stefánsdóttir. Sonur Þuríðar og Ágústs er Sigurleifur, f. 11. ágúst 1954 á Mýrum í Dýrafirði, stýrimaður, nú lagerstjóri Olíudreifingar. Eiginkona 9. júlí 1988 Þórhildur Sverrisdóttir, f. 14. október 1961 í Reykjavík, starfar við grafíska miðlun. Foreldrar hennar eru Sverrir Jónsson flugstjóri, f. 1924, d. 1966, og kona hans Sólveig Þorsteinsdóttir, f. 1931. Börn Sigurleifs og Þórhildar eru: 1) Guðmundur Ingi, f. 30. nóvember 1988, MSc í iðnaðarverkfræði og stjórnun, starfar hjá Marel. 2) Benedikt, f. 18. ágúst 1992, hugbúnaðarverkfræðingur og starfar hjá Controlant.

Eiginmaður Þuríðar var Guðmundur Ingi Kristjánsson, f. 15. janúar 1907 á Kirkjubóli í Bjarnardal, Önundarfirði, skáld og bóndi þar, einnig skólastjóri í Holti, Önf. Foreldrar hans: Kristján G. Guðmundsson, bóndi á Kirkjubóli, og kona hans Bessabe Halldórsdóttir. Guðmundur Ingi lést þann 30. ágúst 2002.

Hún flutti frá Gljúfurá að Mýrum árið 1936 ásamt foreldrum sínum, systkinum, afa og ömmu: Vagni Guðmundssyni og Þuríði Gísladóttur. Þuríður veiktist af berklum níu ára gömul en fékk bót meina sinna á Sjúkraskýlinu á Þingeyri.

Fyrir tvítugt hleypti Þuríður heimdraganum og réð sig til heimilisstarfa hjá móðurbróður sínum í Reykjavík. Þaðan lá leiðin í Hafnarfjörð til Unu föðursystur Þuríðar og Davíðs manns hennar. Úr Hafnarfirði lá svo leiðin austur á Hvolsvöll. Þar starfaði Þuríður um skeið hjá sýslumannshjónunum Birni og Margréti. Skólaárið 1945-6 stundaði hún nám við Húsmæðraskólann á Ísafirði.

Um nokkurt skeið starfaði hún við mötuneyti Héraðsskólans á Núpi og einnig oft á heimili foreldra sinna.

Haustið 1954 réð hún sig sem ráðskonu við Holtsskóla í Önundarfirði. Þar var Guðmundur Ingi skólastjóri. Þuríður hóf snemma að kenna handavinnu við skólann auk þess að sjá um mötuneytið. Eftir að Þuríður og Guðmundur Ingi giftu sig, 2. september 1962, bjuggu þau á Kirkjubóli á sumrin en á veturna í Holtsskóla. Árið 1974 lét Guðmundur Ingi af skólastjórn í Holti og fluttist þá ásamt Þuríði og Sigurleifi alfarið að Kirkjubóli. Þar bjuggu þau uns Guðmundur lést árið 2002. Þuríður flutti eftir það til Reykjavíkur. Hún bjó á Hofteigi 42 til ársins 2011 að hún flutti á Hjúkrunarheimilið Skjól við Kleppsveg í Reykjavík.

Þuríður Gísladóttir lést á Hjúkrunarheimilinu Skjóli í Reykjavík þann 30. október 2016.

Minningarathöfn fór fram frá Laugarneskirkju mánudaginn 7. nóvember 2016.

Þuríður var jarðsett þann 12. nóvember 2016  að Holti í Önundarfirði.


Holtsoddi og séð að Holti og fram í Bjarnardal í Önundarfirði.



Skráð af  Menningar-Bakki.

DEILA