Þröstur Sigtryggsson skipherra fæddist 7. júlí 1929. Hann lést 9. desember 2017.
Foreldrar hans voru hjónin Hjaltlína Margrét Guðjónsdóttir, kennari og húsfreyja, frá Brekku á Ingjaldssandi, f. 4.7. 1890, d. 30.1. 1981, og séra Sigtryggur Guðlaugsson, prestur og skólastjóri á Núpi, frá Þröm í Garðsárdal, f. 27.9. 1862, d. 3.8. 1959. Bróðir Þrastar var Hlynur veðurstofustjóri, f. 5.11. 1921, d. 14.7. 2005.
Þann 22.5. 1954 kvæntist Þröstur Guðrúnu Pálsdóttur sjúkraliða, f. 23.9. 1933, d. 25.8. 2013. Foreldrar hennar voru Bjarnheiður Jóna Guðmundsdóttir húsmóðir, f. 7.9. 1910, d. 10.8. 1976, og Páll Þorbjarnarson, skipstjóri og alþingismaður, f. 7.10. 1906, d. 20.2. 1975.
Börn Þrastar og Guðrúnar eru:
1) Margrét Hrönn, maki Sigurður Hauksson. Sonur Margrétar er Þröstur Rúnar Jóhannsson.
2) Bjarnheiður Dröfn, maki Sigurjón Þór Árnason. Börn þeirra eru Sigtryggur Örn Sigurðsson, Rúna Björg, Ellen Dögg og Árni.
3) Sigtryggur Hjalti, maki Guðríður Hallbjörg Guðjónsdóttir, hún lést 1995. Synir Sigtryggs eru Þröstur, Guðjón Örn og Hlynur.
Fyrir átti Þröstur Kolbrúnu Sigríði, maki Magnús Pétursson. Þeirra synir eru Sigurður Hannes, Pétur Örn, Davíð Þór og Friðjón. Langafabörn Þrastar eru 24.
Eftir lát eiginkonu sinnar eignaðist Þröstur góðan félaga og vin, Hallfríði Skúladóttur.
Þröstur ákvað nokkuð snemma að hans ævistarf yrði á sjó. Hann tók inntökupróf upp í annan bekk farmanna í Stýrimannaskólanum haustið 1952 og útskrifaðist frá Stýrimannaskólanum 1954 og lauk prófi í varðskipadeild í sama skóla 1954. Hann réðst þá sem stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni og varð fastráðinn skipherra 1960 og starfaði þar til hann lét af störfum árið 1990.
Þröstur kenndi tvo vetur við grunnskólann á Þingeyri. Reri einnig frá Þingeyri á eigin trillu, Palla krata, sumrin 1993 og 1994.
Hann var skólastjóri barnaskólans á Núpi 1981 til 1983 og kenndi einnig við Héraðsskólann á Núpi.
Þröstur var mikill áhugamaður um golf á þessum árum og stofnaði golffélagið Glámu á Þingeyri, ásamt því að teikna merki félagsins. Hann falaðist eftir jörð og fékk þar sem hann hannaði og gerði níu holu golfvöll. Æskuslóðir voru honum hugleiknar og gerði hann æskuheimili sitt, Hlíð í Dýrafirði, að menningarminjasafni. Átti hann hugmynd að ritun sögu Núpsskóla. Sú hugmynd varð að veruleika og kom bókin, sem Aðalsteinn Eiríksson ritaði, út í sumar, á 110 ára afmæli stofnunar skólans.
Minningabrot Þrastar, bókin „Spaugsami spörfuglinn“, komu út 1987. Í tilefni gullbrúðkaups og 75 ára afmælis Þrastar gaf hann út diskinn „Hafblik“ með eigin lögum.
Þröstur var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 17. júní 1976. Hin síðari ár var hann virkur í starfi eldri borgara í Grafarvogi og var í stjórn menningardeildar í Borgum þegar hann lést.
Hlíð að Núpi í Dýrafirði. Ljósm.: BIB
Skráð af Menningar-Bakki