Kjartan Theophilus Ólafsson fæddist á Látrum í Aðalvík þann 24. júlí 1924.
Kjartan var fjórði í röðinni af sjö systkinum. Á Látrum ólst hann upp fyrstu fjögur árin áður en fjölskyldan hélt til vesturstrandar Bandaríkjanna þar sem þau bjuggu næstu fjögur ár. Átta ára gamall var hann aftur kominn í Aðalvíkina, nú að Stað þar sem fjölskyldan bjó næstu árin, áður en þau fluttu aftur að Látrum.
Foreldrar hans voru Ólafur Helgi Hjálmarsson, fæddur í Stakkadal, 14. nóvember 1895 og dáinn í Reykjavík 17. júní 1974, útvegsbóndi og vélvirkjameistari í Reykjavík, og eiginkona hans Sigríður Jóna Þorbergsdóttir, fædd í Neðri-Miðvík í Aðalvík, 2. desember 1899, dáin í Reykjavík 20. mars 1983.
Föðurforeldrar voru Hjálmar Jónsson, útvegsbóndi í Stakkadal, og kona hans Ragnhildur Jóhannesdóttir. Móðurforeldrar voru Þorbergur Jónsson, útvegsbóndi í Efri-Miðvík og kona hans Oddný Finnbogadóttir.
Systkini Kjartans er upp komust voru Ragnhildur, Oddný, Ásta, Friðrik Steinþór, Sveinn og Helga.
Kjartan kvæntist þann 19. júlí 1951 Bjarneyju Ágústu Skúladóttur, fædd á Ísafirði 26. október 1926, dáin 4. ágúst 2008. Foreldrar hennar voru Skúli Þórðarson skipasmiður á Ísafirði og Sigrún Laufey Finnbjörnsdóttir húsmóðir og verkakona.
Kjartan og Ágústa áttu fimm börn;
Jökul Veigar f. 21. desember 1948, Ólaf Helga f. 2. september 1953, Skúla f. 1. september 1954, Hjálmar f. 1. mars 1958 og Bergdísi Lindu f. 1. ágúst 1963.
Jökull Veigar (kjörsonur Kjartans) er rafvirki og rafeindavirki og á tvö börn.
Ólafur Helgi er lögfræðingur og stjórnsýslufræðingur kvæntur Þórdísi Jónsdóttur og þau eiga fjögur börn.
Skúli er rekstrarhagfræðingur kvæntur Nancy Barish og eiga þau tvær dætur.
Hjálmar er rekstrarhagfræðingur kvæntur Guðnýju Önnu Arnþórsdóttur og eiga þau tvö börn
Bergdís Linda er mannauðssérfræðingur gift Þórði Kristjánssyni og eiga þau tvær dætur.
Kjartan hóf störf til sjós um fermingu og vann sjómannsstörf fyrstu tvo áratugi starfsævinnar.
Um tvítugt hóf Kjartan að afla sér menntunar á sviði vélstjórnar og málmsmíði samhliða sjómennskunni og lauk mótorprófum, vélvirkjanámi og að endingu vélstjórnar- og vélfræðingsprófi.
Kjartan kom í land og gerðist vélstjóri í Steingrímsstöð við Sog 1960, þar sem fjölskyldan bjó til 1978.
Kjartan lauk starfsævinni við Írafossvirkjun 1994 og fluttu þau hjón þá niður á Selfoss.
Kjartan var áhugasamur um samfélagsmál og sat m.a. í hreppsnefnd Grafningshrepps og skólanefnd Ljósafossskóla, ásamt því að sinna trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Frímúrararegluna.
Kjartan T. Ólafsson lést á Seltjörn þann 2. nóvember 2020.