Maskína: Samfylkingin stærst

Samfylkingin mælist með mest fylgi í nýrri könnun Maskínu sem birt var í morgun. Fengi hún 25,3% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn kemur næstur með 19,3%. Fjórir flokkar mælast á bilinu 8 – 11%. Það eru Píratar með 11%, Viðreisn með 10,4%, Framsóknarflokkurinn 9,6% og Vinstri grænir 8%. Þrír flokkar mælast með 4,5% – 6%. Það eru Flokkur fólksins 6%, Miðflokkurinn 5,9% og Sósíalistaflokkurinn er með 4,5%.

Átta flokkar fengju samkvæmt þessu þingsæti en óvíst er með Sósíalistaflokkinn þar sem hann er undir 5%. Ríkisstjórnarflokkarnir bæta við sig fylgi frá síðasta mánuði og Samfylkingin dalar.

Fylgistölur eru brotnar niður eftir landssvæðum sem fylgja ekki alveg kjördæmamörkum. Gefnar eru upp fylgistölur fyrir Vesturland og Vestfirði samanlagt. Þar er Samfylkingin stærst með 25% fylgi, Sjálfstæðisflokkur 17,2%, Viðreisn 15,9%, Framsókn 14,2%, Vinstri grænir 8,8%, Píratar 6,1%, Flokkur fólksins 5,1%, Miðflokkurinn 4,1% og Sósíalistaflokkurinn 3,6%.

Ef úrslitin í Norðvesturkjördæmi yrðu samkvæmt þessu myndi Samfylkingin fá 2 þingsæti sem og Sjálfstæðisflokkurinn og Viðreisn, Framsókn og Vinstri grænir eitt hver. Miðað er við sjö kjördæmaþingsæti eins og var í síðustu Alþingiskosningum en þetta getur breyst í næstu þingkosningum og þá myndi fækka um eitt þingsæti í Norðvesturkjördæmi.

DEILA