Þegar dregin eru aðalatriðin út úr nýlegri rannsóknarskýrslu Hafrannsóknarstofnunar um erfðablöndun laxa eru þau að ástand villtra nytjastofna í laxi er mjög gott varðandi blöndun villts lax og norsks eldislax á Íslandi. Sýni sem tekin voru á nokkurra ára tímabili sýndu engin dæmi voru um að eldisfiskur færi upp í laxveiðiá og að blendingsseiði voru helst nærri eldissvæði sem er í samræmi við áhættumat Hafrannsóknarstofnunar. Segir í skýrslunni að dreifingin sé í samræmi við almenna þekkingu um útbreiðslu erfðablöndunar út frá eldissvæðum.
Hafrannsóknarstofnun ákvað að fylgjast með áhættunni á blöndun með því að skoða hve mikið af klakfiski á hverjum tíma í laxveiðiá er eldisfiskur og hve mikið er af náttúrulegum stofni árinnar. Sett voru þau mörk að ef hlutfallið af eldisfiski er undir 4% þá verði ekki neikvæð áhrif á villta stofninn. Þetta þröskuldsgildi ásættanlegrar innblöndunar eldislaxa í náttúrulegar laxveiðiár var sett með hliðsjón af erlendum heimildum og náttúrulegu flakki villtra fiska milli áa.
Með þessum hætti má byggja stjórnun laxeldis á nýjustu upplýsingum til að lágmarka umhverfisáhrif greinarinnar segir í áhættumati stofnunarinnar og að markmiðið „er að hámarka atvinnu- og samfélagsleg áhrif laxeldis án neikvæðra áhrifa á lax- og silungsveiði í landinu.“
Líkan Hafrannsóknarstofnunar um mat á hætti á erfðablöndun milli eldislax og villts lax svipar mjög til líkans norsku náttúrufræðistofnunarinnar, NINA. Með því er spáð fyrir um áhrif á villta stofninn ef eldisfiskur gengur upp í ána og hrygnir. Líkanið reiknar samsetningu stofns á hverjum tíma (afkomendur villtra fiska, eldisfiska og blendinga) á öllum lífsstigum og spáir um hve mikið breytur eins og hlutfall eldisfisks hafa á stofn yfir fleiri kynslóðir. Áhættumat NINA er með sex flokka eftir umfangi erfðablöndunarinnar.
Ef 95- 100% af stofni árinnar er villtur fiskur á er stofninn í mjög góðu horfi. Það jafngildir að árlega hafi 0 – 1,6% fiska í klakstofni verið eldisfiskur. Sé hlutfallið 90 – 95% telst stofnin í góðu horfi. Þá hefur árlega 1,6-3,3% fiska í klakstofni verið eldisfiskur. Stofn er talinn í hættu ef villtur hluti stofns er 25-50%. Þá jafngildir því að árlega hafi 20-35% fiska í klakstofni verið eldisfiskur.
Eins og sjá má eru mörkin heldur þrengri hér á landi en í Noregi sem þýðir að minni blöndun er leyfð. Engu að síður reiknaðist Hafrannsóknarstofnun til á sínum tíma að aðeins fjórar ár á landinu gætu náð því að eldisfiskur yrði nálægt því að vera 4% af stofni árinnar, en væru allar undir mörkunum. Það eru Laugardalsá, Langadalsá/Hvannadalsá í Ísafjarðardjúpi og Breiðdalsá á Austurlandi. Í umræddri nýju skýrslu Hafrannsóknarstofnunar kemur fram að árið 2019 fannst eldisfiskur í Botnsá í Tálknafirði og 26 fiskar í Mjólká í Arnarfirði. Hvorug þessara áa er laxveiðiá og því engum nytjastofni að spilla með erfðablöndun. Allar ár á Vestfjörðum með einhvern nýtanlegan veiðistofn eru undir 4% mörkunum og það langt undir. Það er niðurstaðan.
Af seiðum veiddust 133 blendingsseiði á Vestfjörðum á þessu árabili milli villts lax og eldislax en þau breyta ekki erfðasamsetningu stofnsins í þeirri á sem þau klöktust út. Það gerist ekki fyrr en þau seiði verða klaklax og æxlast við aðra blendingsfiska m.ö.o. blendingar af annarri kynslóð. Aðeins fimm slík fundust í sýnunum sem Hafrannsóknarstofnun rannsakaði og þar af voru 4 á Austurlandi. Þetta eru svo fá dæmi að þau skipta engu máli.
Niðurstöðuorð Hafrannsóknarstofnunar eru líka hófstillt. Aðeins að frekari rannsókna er þörf.
Rangfærslur Landssambands veiðifélaga
Landssamband veiðifélaga hefur í fréttatilkynningu haldið því fram að erfðablöndun hafi verið staðfest í þremur miklum laxveiðiám, í Víðidalsá í Húnavatnssýslu, Laxá í Aðaldal og Hofsá í Vopnafirði og segir að stórir stofnar í mjög fjárhagslega arðbærum laxveiðiám eru í hættu.
Þarna er mjög skotið yfir markið í hræðsluáróðrinum. Í hverri þessar þriggja áa fannst eitt blendingsseiði. Eitt seiði eitt árið sem athugað var. Hin árin ekkert. Miðað við stærð laxastofnsins í þeim eru 4% mörkin við 29-33 fullorðna laxa. Það fannst enginn slíkur lax í neinni þeirra, aðeins eitt seiði. Það seiði þarf að verða að hrygningarlaxi og æxlast við annan blending og afkvæmið að verða orðinn að laxi til þess að tala megi um breytingu á erfðamengi eins lax úr stofni árinnar. Það er ekki komið að því. Síðan þarf að vera langvarandi blöndun til þess að erfðabreytingin gangi fram og hafi áhrif á stofninn. Það er líka fjarri lagi.
Landssambandið segir líka í fréttatilkynningunni að niðurstöður rannsóknarinnar sýni „fram á 4,3% erfðablöndun í íslenskum ám sem er yfir því viðmiði sem áhættumat erfðablöndunar setur.“
Þetta er hrein fölsun á því sem fram kemur í skýrslunni. Niðurstöðurnar eru ekki þær að erfðablöndun sé 4,3% og hún er ekki yfir viðmiði áhættumats Hafrannsóknarstofnunar.
Það sem sjá má í rannsóknarskýrslunni er að í 4,3% sýnanna séu blendingar. Það er ekki það sama og 4,3% erfðablöndun í íslenskum ám. Ekki voru tekin sýni úr öllum íslenskum ám. Sýnin endurspegluðu ekki dreifingu laxins um landið og voru auk þess tekin á mismunandi tíma sem dreifðist yfir nokkur ár. Mjög mikið af sýnum voru tekin úr ám nálægt laxeldi, sem eru litlar eða engar laxveiðiár. Það er því ekkert hægt að segja til um samhengi milli sýnanna og raunverulegs þýðis. Í öðru lagi þá eru seiði ekki fullorðnir fiskar og áhættumat Hafrannsóknarstofnunar miðast við kynþroska fisk. Samkvæmt því sem fram kemur í skýrslunni er engin á nálægt því að eldisfiskur sé 4% af stofni árinnar. Þær eru allar langt undir þessum mörkum. Nytjastofnarnir eru allir í mjög góðu lagi.
18 – 20 milljarða króna fórn
Reyndar kemur fram að árnar í Ísafjarðardjúpi eru svo kyrfilega lausar við hættu á erfðablöndun að það vekur vonir um að heimilað verði að nýta allt burðarþol Ísafjarðardjúps 30.000 tonn í stað 12.000 tonna nú. Það munar um 18.000 tonn af laxi á hverju ári. Sú framleiðsla gefur 18 – 20 milljarða króna á ári í nýjar útflutningstekjur, sem eru bein efnahagsleg áhrif. Til samanburðar þá voru bein áhrif af stangveiði á öllu landinu metin fyrir nokkrum árum sem 4 milljarðar króna á ári.
Það er mikil fórn að kasta á hverju ári 18 – 20 milljörðum króna út um gluggann út af ímyndaðri hræðslu við áhrif eldisins á laxastofna í þremur ám, sem skiluðu um 200 löxum í veiði í fyrra. Dýr myndi Hafliði allur var eitt sinn sagt en stangveiðilaxinn gerir Hafliða ódýran.
-k
.