Enginn eldislax fannst í laxveiðiá með skilgreindan laxastofn á Vestfjörðum í rannsókn Hafrannsóknarstofnunar um áhrif á laxeldi í sjó á villtan íslenskan lax sem birt var fyrir helgina.
Alls voru 6.348 laxaseiði úr 89 ám á landinu öllu rannsökuð og áhersla lögð á svæði í nálægð við sjókvíaeldi. Flest sýni tilheyrðu hrygningarárgöngum 2014-2018. Sýni voru erfðagreind með 60.250 samsætum (SNP-erfðamörkum) og erfðaupplýsingar 250 eldislaxa nýttar til samanburðar. Í mörgum ánna 89 eru litlir stofnar og í öðrum enginn stofn, þótt seiði hafi fundist í þeim.
Alls greindust 133 fyrstu kynslóðar blendingar (afkvæmi eldislaxa og villtra laxa) í 17 ám (2,1% sýna). Eldri blöndun (önnur kynslóð eða eldri) greindist í 141 seiðum í 26 ám (2,2% sýna).
Niðurstaðan er sú að sögn Guðna Guðbergssonar, sviðsstjóra ferskvatns- og eldissviðs Hafrannsóknarstofnunar að „Þessi viðamikla rannsókn staðfestir mikilvægi frekari rannsókna. Við þurfum að skoða kynslóðaskiptingu blendinganna ásamt umfangi þeirra og orsökum dreifinga eldri blöndunar.“
Á Vestfjörðum komu fram í rannsókninni 29 eldislaxar sem gengu upp í tvær ár. Var það árið 2019 þar sem einn lax kom í Botnsá í Tálknafirði og 2 laxar árið 2016 og auk þess 26 laxar í Mjólká í Arnarfirði árið 2019. Hvorug áin er laxveiðiá og í þeim er ekki laxastofn.
2 sýni af 621 – 0,003%
Á Vestfjörðum eru þrjár laxveiðiár sem Hafrannsóknarstofnun fylgist með og eru teknar með í áhættumat um erfðablöndum. Það eru Laugardalsá, Langadalsá og Hvannadalsá , allar í Ísafjarðardjúpi. Í þessari rannsókn voru tekin sýni árin 2017, 2019 og 2020 úr ánum þremur. Í Laugardalsá voru tekin 192 sýni 2019 og 85 sýni árið 2020 og reyndust þau öll vera af villtum laxi. Ekkert seiðanna var blendingur. Í Hvannadalsá voru tekin 25 sýni árið 2019 og voru þau einnig öll af villtum laxi. Ekkert blendingsseiði fannst. Í Langadalsá voru tekin 208 sýni árið 2019 og 97 sýni árið 2020. Fyrra árið voru 204 af villtum laxi, tvö seiði reyndust vera afkvæmi fyrstu kynslóðar blendings og illts lax og tvö sýni vour óviss. Seinna árið voru 96 af villtum laxi en ekki kemur fram í skýrslunni neitt um það eina sem vantar upp á. Ekkert sýnanna var blendingur af annarri kynslóð. Árið 2017 voru tekin 2 sýni í Laugardalsá og 1 sýni í Langadalsá og voru þau öll af villtum laxi.
Niðurstaðan er að í þessum þremur laxveiðiám fundust aðeins 2 sýni blendings af 621 sýnum sem tekin voru. Það gerir aðeins 0,003%. Eins er ekki síður athyglisvert að ekkert sýni af annarri kynslóð blöndunar fannst í ánum þremur og reyndar ekkert á Vestfjörðum öllum. Tekin voru 4.220 sýni úr 39 ám á Vestfjörðum á árunum 2015 – 2020. Í fæstum þeirra eru laxastofnar í nýtanlegum mæli, en í lögum um fiskeldi segir að vernda skuli villta nytjastofna.
Samtals fundust 118 blendingar af fyrstu kynslóð, þ.e. afkvæði villts lax og eldisfisks á Vestfjörðum og 42 seiði voru afkvæmi fyrstu kynslóðar blendings og villts lax. Samtals eru þetta 160 blendingar eða 0,038% af sýnunum. Langflest voru blendingsseiðin í Arnarfirði ( 53) og Tálknafirði (35) þar sem fiskeldið er umfangsmikið en að sama skapi litlir hagsmunir í laxveiði. Athygli vekur að 22 blendingsseiði af fyrstu kynslóð fundust í Hraundalsá í Ísafjarðardjúpi árið 2018. Engin skýring er gefin á þessu í skýrslunni en geta má þess að seiðaeldisstöð er þar skammt frá.
Í skýrslunni er vakin athygli á því að rannsóknin greini áhrif frá upphafsárum núverandi eldis, meðan framleiðslumagn var lítið, og eldri tilrauna í sjókvíaeldi. Niðurstöðurnar í þessari skýrslu sýna að erfðablöndun hefur orðið við hlutfallslega lítið eldismagn segir í lokaorðum.