Landfylling við Norðurtanga umdeild

Fimm umsagnir og 16 athugasemdir bárust Ísafjarðarbæ við kynningu á aðalskipulagsbreytingu um íbúðarbyggð á landfyllingu norðan eyrar sem auglýst var í vor.

Umhverfisstofnun, Vegagerðin, Míla og Súðavíkurhreppur gerðu ekki athugasemdir við tillöguna en Umhverfisstofnun bendir á að skoða eigi hvort mögulegt sé að „móta landfyllingu með svipuðu formi og sýnt er á mynd 4 í greinargerð í stað þess að ný strönd verði þráðbein. Skoða ætti hvort „nýr vogur“ Norðan Eyrar myndi stuðla að aukinni setmyndun og myndun nýrrar fjöru sem nýst gæti til útivistar.“

Bolungavíkurkaupstaður gerði athugasemd og vill huga betur að þjóðvegi 61 í gegnum skipulagssvæðið vegna aukinnar umferðar.

Athugasemdir bárust frá 16 aðilum að auki. Þar af var ein frá um 40 íbúum Fjarðarstrætis 2 – 6 og eru þar gerðar alvarlegar athugasemdir og mótmælt áformunum. Segja íbúarnir að áformin muni valda „stórtækum breytingum á lífsgæðum okkar og rýrnun á stærstu fjárfestingum okkar, sem munu verða ef af framkvæmdum verður“. Telja þeir að „gert sé ráð fyrir fjölbýlishúsum á austanverðri fyllingunni, þ.e. framan við blokkina okkar – allt að 3 hæðir og ris, þ.e. sama hæð og núverandi fjölbýli við Norðurtanga.“

Fleiri athugasemdir bárust frá íbúum við Fjarðarstræti. Kolbrún Sverrisdóttir telur að verð á húseign hennar muni lækka og breytingin hafi mikil sjónræn áhrif og breyta ásýnd landsins gríðarelga. Jón Benediktsdóttir og Henrý Bæringsson mótmæla landfyllingunni. Saga Björgvinsdóttir mótmælir og sama gerir Björgvin Hilmarsson og Auður Arna Höskuldsdóttir. Ómar Smári Kristinsson og Nina Ivanova íbúar á Hrannargötunni eru ekki hrifin af breytingunum og segja staðinn sem þau eiga heima á verða minna æskilegur.

Satu Rämö telur skattfé illa varið með þessu og segir fjöruna eyðilagða. Haukur Sigurðsson lýsir vanþóknun sinni yfir áformunum

Magnús Þór Bjarnason fagnar áformunum. Sigurður Jón Hreinsson telur þær skynsamlegar. Þór Ólafur Helgason telur landfyllinguna góða. Hjörtur Grétarsson leggur til að norðurtanginn verði lengdur í breyttri tillögu og gerður útsýnisstaður sem gæti hentað vel fyrir útivistafólk og túrista, t.d. farþega skemmtiferðaskipa. „Einnig yrði sú breyting líkleg til þess að sandur safnist í fjöruna eftir stækkun sem yrði þá ákjósanlegt útivistasvæði. Sandur bærist síður inn sundin.“ Hlynur Snorrason styður breytingarnar.

Indriði Kristjánsson telur hugmyndina góða en leggur til þær breytingar að fyrirhugaðar breytinga taki mið af upphaflegri legu eyrarinnar með nýjum viðmiðunarpunkti norðan við Sólgötu. Fyrirhuguð fylling í Norðurtanga haldist en stefna í átt að Prestabugt verði færð í norður til samræmis við upphaflega legu eyrarinnar. Grjótgarður sem fyrir er verði færður fram til samræmis við fyrirhugaða fyllingu. Gert verði ráð fyrir sandburði meðfram fyllingun þannig að ný fjara geti myndast með sömu stefnu og upphaflega fjara við Fjarðarstrætið var. Ný fylling verði gerð í sveig frá nýjum viðmiðunarpunkti við Sólgötu meðfram Hnífsdalsvegi í átt að Pétursborg.

Kerecis sendi inn athugasemd og leggjast gegn framkvæmdinni. Segir forstjóri Kerecis ljóst að „þær forsendur sem lagt var upp eru ekki lengur til staðar og því mikilvægt að betra samráð verði haft við hagsmunaaðila á svæðinu og fullnægjandi grundvöllur lagður að málinu áður en ráðist er í slíkar breytingar og þannig stuðlað að meiri sátt um málið.“

Í bréfi Kerecis segir að fyrir utan augljós áhrif á íbúa í Fjarðarstræti, megi nefna að með því að reisa tæplega 400 íbúa byggð á svæðinu verði Sólgata og Hrannargata „endanlega festar í sessi sem stofnbrautir með óumdeilanlega auknum umferðarþunga um þessar tvær þröngu íbúagötur.“

Kerecis hf. sem rekur starfsemi á Ísafirði, m.a. á Sundstræti 38 og Eyrargötu 2-4 kemur alvarlegum athugasemdum á framfæri vegna þeirra áhrifa sem bæði framkvæmdin og fyrirhugaðar breytingar munu hafa á starfsemi og hagsmuni félagsins eins og segir í bréfinu. Hafa forsvarsmenn fyrirtækisins verulegar áhyggjur af umhverfisáhrifum sérstaklega sandfoki en einnig titringi af þungum efnisflutningum og benda á að um sé að ræða viðkvæma lækningavöruframleiðslu.

Þá segir: „Kerecis byggir markaðssetningu sína að miklu leyti á ímynd Ísafjarðar og nýtir talsvert myndefni af
Eyrinni þar sem samfelld byggð gamalla húsa, lögun Eyrarinnar og útsýni að Snæfjallaströnd spila saman. Forsvarsmenn fyrirtækisins eru stoltir af uppruna þess á Ísafirði og flagga honum í hvítvetna. Breyting þessa hluta bæjarins í framkvæmdasvæði skemmir þessa ímynd að nauðsynjalausu, þegar aðrir og betri valkostir fyrir landfyllginu eru í boði.“

DEILA