Halldór Torfason læknir (1862–1939)

Halldór Torfason (1862–1939), Flateyri. Halldór var sonur Torfa Halldórssonar, skipstjóra og verslunarmanns, og Maríu Össurardóttur, konu hans.

Halldór lauk prófi við læknaskólann 1888 og starfaði sem læknir á svæðinu um þetta leyti. Hann fluttist síðar vestur um haf og nam vélaverkfræði. Frá um 1911 mun hann aðallega hafa starfað sem vélaverkfræðingur. Hann lést vestra þann 26. nóvember 1939.

Af því hafa gengið sögur að flutningur Halldórs vestur hafi ekki komið til af góðu, en nokkrum mánuðum áður en myndin er tekin hafði hann krufið lík Salómons Jónssonar, sem fannst látinn skömmu fyrir jól 1891.

Skýrsla Halldórs var ekki til þess fallin að segja með afgerandi hætti til um hvort andlát Salómons hefði átt sér stað fyrir tilstilli annars, en mjög almennur grunur var um að þetta væri morðmál. Skúli Thoroddsen, sýslumaður á Ísafirði, fór með málið sem slíkt, og varð það kveikjan að svonefndu Skúlamáli.

Hæglega má hugsa sér að Halldóri hafi reynst ofraun að standa móti sögusögnum um það að hafa annars vegar haldið hlífiskildi yfir morðingja en hins vegar tekið þátt í vægast sagt umdeildri aðför að vinsælum embættis- og stjórnmálamanni.

Af sarpur.is

DEILA