Fjórðungssamband Vestfirðinga : vonbrigði með frestun framkvæmda í samgönguáætlun

Fjórðungssamband Vestfirðinga telur að yfirmarkmið samgönguáætlunar 2024-2038, sem er í kynningu í samráðsgátt stjórnvalda, sé ásættanleg. Þar er gert ráð fyrir að íbúar eigi að geta ferðast hindranalítið innan atvinnusvæða og eigi að geta nálgast miðlæga þjónustu á höfuðborgarsvæði á innan við 3,5 tímum.

Seinkun framkvæmda um 2 – 3 ár

Lýst er vonbrigðum að fjármagn til framkvæmdaáætlunar næstu fimm ára felur í sér að framkvæmdatími verkefna sem hafin eru mun dragast um tvö til þrjú ár miðað við gildandi framkvæmda áætlun. Lýst er áhyggjum af áhrifum þessa fjárhagsramma áætlunarinnar á byggingu brúa sem eru dýrustu áfangar endurbóta á Vestfjarðavegi 60 um Gufudalssveit, að þeim verði frestað enn frekar. Gerð er krafa um að fjármagn verði hér aukið þannig að framkvæmd verði lokið eigi síðar en sumarið 2026.

Einnig að er lýst vonbrigðum með að nýframkvæmdum, sem eru á áætlunartímabilinu 2025-2028 í gildandi samgönguáætlun, er frestað um fimm ár.

Í umsögn Fjórðungssambandsins segir að framkvæmd við Vestfjarðaveg 60 um Gufudalssveit er lengd til ársins 2027 en átti að vera lokið 2024, en þar er brúargerð í Djúpafirði og Gufufirði stærstu áfangarnir. Framkvæmd við veg um Dynjandisheiði er sömuleiðis framlengd um tvö ár og líkur 2027 í stað 2025. Hinn langi aðdragandi að þessum verkefnum eða 10 til 15 ár og áætlanir sem þá voru settar fram um kostnað standast ekki í dag.

„Það eru mikil vonbrigði að ekki hefur tekist að mæta þessum kostnaðar breytingum og að lengt er í framkvæmdatíma með frestun útboða. Gerð er krafa um að fjármagn til brúargerðar í Gufufirði og Djúpafirði verði aukið og framkvæmdum við þær verði lokið sumarið 2026.“

Ekki fé í að ljúka Vatnsfjarðarveg

Hvorki í framkvæmdaáætlun 2024-2028 né í langtímaáætlun til 2038 er ekki gert ráð fyrir lokaáfanga Vestfjarðavegar 60 í Vatnsfirði. Vissulega hefur ekki fengist niðurstaða um hvort vegstæði feli í sér þverun Vatnsfjarðar eða endurbyggðum vegi um Vatnsfjörð. Þessi biðstaða mun hinsvegar óbreyttu leiða til ófremdarástands vegna aukinnar umferðar segir í umsögninni. Fjórðungssambandið segir að hér þurfi að lágmarki að tvöfalda einbreiðar brýr á Pennuá og ásættanlega tengingu við ferðaþjónustu í Flókalundi.

Bíldudalsvegi og Innstrandarvegi frestað

Öðrum verkefnum á Vestfjörðum sem tilgreind eru í á öðru tímabili (2025-2028), hefur verið seinkað um eitt framkvæmdatímabil til 2028-2032 í þessum drögum að samgönguáætlun. Hér um ræðir stofnvegina Bíldudalsvegur 63 úr Arnarfirði að Vestfjarðavegi 60 á Dynjandisheiði og vegkafla á Innstrandavegi 68 í Strandasýslu, vegkaflar sem skipta samfélögin miklu.

Engin ný stofnvegaverkefni á Vestfjörðum eru í drögunum.

Veiðileysuháls einnig frestað

Nýframkvæmdum á tengivegum þ.e. Strandavegi 643, Veiðileysuháls einnig frestað um hið sama og er nú frestað í þriðja sinn frá 2014 segir í umsögn Fjórðungssambandsins. „Umhverfismati er nær lokið og áætlun um kostnað liggur
fyrir. Samkvæmt markmiðum verkefnisins Áfram Árneshreppur sem er hluti af verkefnum í Brothættum byggðum, þá er framkvæmdin lykilatriði í uppbyggingu samfélagsins í Árneshreppi. Gerð er krafa um að verkefninu verði ekki frestað.“

Felld er niður framkvæmd á Örlygshafnarvegi sem tilgreind var í Samgönguáætlun 2020-2024, en ekki náðist samkomulag við landeigendur um vegstæði þegar kom að framkvæmd. Fjórðungssambandið gerir kröfu um að verkefnið komist aftur á áætlun.

DEILA