Fiskeldi á Vestfjörðum: atvinnutekjur sautjánfaldast frá 2010

Í fyrra voru atvinnutekjur íbúa á Vestfjörðum af fiskeldi um 2,1 milljarður króna samanborið við 120 milljónir á árinu 2010, á verðlagi ársins 2022. Það þýðir að þær hafi ríflega sautjánfaldast að raunvirði á tímabilinu. Þetta kemur fram í grein sem Þröstur Sæmundsson hagfræðingur Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi ritaði og birtist í Viðskiptablaðinu síðastliðinn fimmtudag.

Á sama tíma hafa atvinnutekjur af ferðaþjónustu á Vestfjörðum farið úr 600 milljónum í tæpa 1.700 milljónir, sem jafngildir tæplega þreföldun. Vestfirðir eru eini landshlutinn þar sem atvinnutekjur af fiskeldi hafa verið umfram samanlagðar atvinnutekjur greina innan ferðaþjónustunnar á undanförnum árum, eða frá og með árinu 2019. Atvinnutekjur í fiskeldi hafa ekki bara vaxið hlutfallslega mest af öllum atvinnugreinum á Vestfjörðum, heldur einnig í krónum talið.

Beinar atvinnutekjur sexfaldast á landsvísu

Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands um staðgreiðsluskyldar launagreiðslur hefur fjöldi starfandi við fiskeldi tæplega fjórfaldast á tímabilinu 2010-2022 og atvinnutekjur, á verðlagi ársins 2022, ríflega sexfaldast. Eru þar ótalin óbeinu störfin, enda áhrif fiskeldis víðtæk í efnahagslegu tilliti. Fiskeldi er grunnatvinnuvegur og er fjöldinn allur af fyrirtækjum sem reiðir sig á starfsemi þess með beinum eða óbeinum hætti. Þessi afleiddu og óbeinu áhrif greinarinnar hafa verið mikil víða um land, sér í lagi á Vestfjörðum og á Austurlandi.

Fram kemur hjá Þresti að fiskeldi er ein af fáum atvinnugreinum sem er umfangsmeiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, en um 80% af atvinnutekjum í greininni koma í hlut einstaklinga sem búa á landsbyggðinni, þar af um þriðjungur í hlut einstaklinga sem búa á Vestfjörðum. 

fiskeldi: meira en 5% af vöruútflutningi

Þröstur segir áhrif fiskeldis á íslenskt efnahagslíf vera umtalsverð eins og sést vel í ýmsu hagtölum. „Ber þá fyrst að nefna að fiskeldi hefur fjölgað stoðum undir gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins og hefur numið um og yfir 5% af verðmætum alls vöruútflutnings á undanförnum misserum. Þessi þróun er afar jákvæð enda er öflugur og fjölbreyttur útflutningur grundvallarforsenda bættra lífskjara hér á landi.“

 

DEILA