Fram kemur í rannsóknarskýrslu Hafrannsóknarstofnunar um erfðablöndun laxa að mjög óvenjuleg staða er í Breiðdalsá á Austurlandi. Þar reyndust 71 seiði af 228 sem tekin voru í ánni vera blendingar milli villts lax og fyrstu kynslóðar blendinga ( afkvæmi villts lax og eldislax) eða 31% allra seiðanna sem rannsóknin náði til. Seiðin 71 í Breiðdalsá eru 52% allra seiða með þessari blöndun sem fundust í rannsókninni, sem náði til alls landsins yfir ákveðið árabil.
Slíkir blendingar greindust í öllum 13 sýnatökum í Breiðdalsá áranna 2017 og 2020 Fjöldi þeirra nam frá einu upp í 12 per sýnatöku og í sumum tilvikum var hlutfall þeirra um og yfir 50%. Álíka blöndun greindist ekki í öðrum laxveiðiám.
Einungis 61% seiðanna í Breiðdalsá voru greind sem villt og er það mjög lágt samanborðið við aðrar ár. Með öðrum orðum 39% seiðanna voru blendingar.
Skýrsluhöfundar leita svara við þessu fráviki en segja að frekari rannsókna er þörf til að skýra umfang erfðablöndunar í
Breiðdalsá.
sleppt hálfri milljón norskra seiða
Sérstaklega er nefnt sem möguleg skýring að mikið umfang seiðasleppinga hafi verið í Breiðdalsá um áratugaskeið. Bent er á að í Breiðdalsá hefur gönguseiðum verið sleppt í yfir 20 ár til að auka veiði. Á árabilinu 1997-2018 var yfir 1,8 milljón gönguseiðum sleppt í ána , þar af um hálfri milljón á sama tíma og fyrra tímabil laxeldis með stofni af norskum uppruna.
Samkvæmt lögum má aðeins ala gönguseiði til sleppinga undan foreldrum (klaklöxum) úr viðkomandi á til að koma í veg fyrir stofnablöndun innan Íslands. Spurningin er þá hvort klaklaxarnir úr ánni hafi verið hreinir villtir laxar eða blendingar.
Breiðdalsá er ekki náttúruleg laxveiðiá en var gerð laxageng með umtalsverðum framkvæmdum í ánni. Þessu er ágætlega lýst í aðsendri grein á bb.is árið 2019 eftir dr Þorleif Eiríksson og dr Þorleif Ágústsson Breiðdalsá – dæmi um tilbúna laxveiðiá.
Í skýrslu Hafrannsóknarstofnunar nú er nefnt að möguleg skýring á hinni hlutfallslega miklu erfðablöndun í Breiðdalsá er sú að erfðablöndun hafi verið mögnuð upp í ánni með seiðasleppingum, þar sem seiðin hafi ekki verið hrein villt heldur hafi að einhverju leyti a.m.k. verið blendingar.
Niðurstöður rannsóknar Hafrannsóknarstofnunar fyrir Breiðdalsá eru mjög frábrugðnar tölunum í öðrum ám. Það gefur tilefni til að taka hana út fyrir sviga við heildarmatið sem aftur lækkar umtalsvert fjölda blandaðra seiða í úrtakinu.
Það er hins vegar mikil gráglettni örlaganna ef það reynist svo að veiðifélag Breiðdalsár , sem berst hatrammlega gegn laxeldi í sjó, hafi lagt mest af mörkum við framleiðslu á blendingsseiðum, auðvitað í því skyni að auka tekjur sínar af sölu veiðileyfa.
-k