Vesturbyggð: viljayfirlýsingin fallin úr gildi

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar.

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri segir að viljayfirlýsing Vesturbyggðar og Arnarlax frá 11. maí 2022 sé fallin úr gildi.

Í yfirlýsingunni kemur fram að Arnarlax áformar að byggja sláturhús á lóð á Vatneyri en gert er ráð fyrir að Straumnes (Kaldbakur) og móttökusvæði fyrir úrgang víki af lóðinni. Þá er gert ráð fyrir uppsetningu biðkvía og framtíðaruppbyggingu stórskipakants við Patrekshöfn. Áætlað er að sláturhúsið sjálft verði um 9.500 m2 og þar verði til framtíðar unnt að slátra allt að 80.000 tonnum af eldisfiski. Þá er í yfirlýsingunni mælt fyrir um gerð langtímasamnings um aflagjöld og samkomulag um ógreidd aflagjöld.

Þórdís segir hins vegar að út frá viðræðum sveitarfélagsins við Arnarlax sé ekki að sjá neinar breytingar á uppbyggingaráformum fyrirtækisins. Samningaviðræðurnar um aflagjöld hafi verið lagðar til hliðar á meðan starfshópur á vegum matvælaráðuneytisins vinnur að nýju lagafrumvarpi um lagareldi, sem er forsenda fyrir skýrri framtíðarsýn í greininni.

Á meðan viljayfirlýsing var í gildi var fyrirtöku máls Vesturbyggðar gegn Arnarlax vegna innheimtu aflagjalda í Vesturbyggð frestað en hefur nú verið tekin fyrir í héraðsdómi og fer málflutningur fram í haust fyrir héraðsdómi Vestfjarða. Ekki er um nýja málsókn Vesturbyggðar gegn Arnarlaxi að ræða að sögn Þórdísar.

Vesturbyggð hækkað aflagjöld af eldisfiski lok árs 2019 úr 0,6% upp í 0,7% af aflaverðmæti en Arnarlax mótmælti hækkuninni og vildi ekki greiða hana. Vesturbyggð stefndi Arnarlax vorið 2021 fyrir héraðsdóm til þess að fá hækkunina greidda.

DEILA