Vesturbyggð: jarðgöng um Mikladal og Hálfdán forsenda sameiningar sveitarfélaga

Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkti a fundi sínum í síðustu viku að að atkvæðagreiðsla um sameiningu Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar verði lokið 28. október 2023 og fól samstarfsnefnd að undirbúa atkvæðagreiðsluna og kynna tillöguna og helstu forsendur fyrir íbúum.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar ályktaði að það væri framfaraskref að sameina sveitarfélögin í eitt sveitarfélag. Þannig yrði til öflugt sveitarfélag með sterkari rekstrargrundvöll sem getur bætt þjónustu við íbúa, með aukinn slagkraft.

Bæjarstjórnin skoraði á Alþingi og ríkisstjórn að hefja nú þegar undirbúning við gerð jarðgangna um Mikladal og Hálfdán í einni framkvæmd, enda sé sú framkvæmd forsenda fyrir farsælli sameiningu sveitarfélaganna. Í ályktun bæjarstjórnar segir að það hafi komið skýrt fram hjá íbúum að forsenda þess að sameining skili árangri sé að svæðið myndi einn búsetu-, atvinnu- og þjónustukjarna þar sem hægt er að ferðast milli byggðakjarna á öruggan hátt allan ársins hring. Þá segir að jarðgöng um Mikladal og Hálfdán séu í samræmi við stefnu stjórnvalda og Alþingis um að útrýma hættulegum fjallvegum, í samræmi við loftslagsstefnu, styður við jafnrétti á landsbyggðinni sem og uppbyggingu fiskeldis á svæðinu svo fá ein dæmi séu nefnd.

Bæjarstjórn leggur til að hönnun jarðgangnanna verði sett á dagskrá fyrsta hluta samgönguáætlunar og að framkvæmd jarðgangnanna verði á öðrum hluta samgönguáætlunar.

Fyrsti hlutinn nær til áranna 2024-2028 og annar hluti gildir fyrir árin 2029-2033. Í framkvæmdaáætlun Vegagerðarinnar, sem fylgir með tillögunni að samgönguáætlun eru jarðgöngin um Hálfdán og Mikladal á áætlun á árunum 2043-2046 og verði lokið það ár. Munar 13 árum á tillögu bæjarstjórnar Vesturbyggðar og framkvæmdaáætlun Vegagerðarinnar.

DEILA