Vestfirði í nýtingarflokk

„Þessi skýrsla fer ekki í biðflokk, ekki í verndarflokk. Hún fer í nýtingarflokk“. Þannig komst Einar Kristinn Guðfinnsson, formaður starfshóps orkumálaráðherra um eflingu samfélags á Vestfjörðum, að orði þegar tillögur hópsins voru kynntar í félagsheimilinu Birkimel á Barðaströnd í gær, fimmtudaginn 29. júní. Skýrslan er unnin af staðgóðri þekkingu, nær vel utan um verkefnið og tillögurnar settar fram í víðtæku samráði við þá sem hluta eiga að máli á Vestfjörðum.

Meginniðurstaða starfshópsins er á að bregðast þurfi við fyrirsjáanlegri aflþörf með því að auka orkuframboð á Vestfjörðum um 80% fram til ársins 2030. Núverandi aflþörf á Vestfjörðum er 44 MW. Orkuskiptin ein og sér kalla á 15 MW, áætluð fólksfjölgun og frekari umsvif atvinnulífs 12 MW og ný kalkþörungaverksmiðja á Súðavík þarf 8 MW. Viðbótaraflþörf er því 35 MW og heildaraflþörfin á Vestfjörðum árið 2030 er því áætluð 79 MW.

Verkefnið er því afar brýnt. Annars vegar þarf að ráðast í umtalsverða raforkuframleiðslu á Vestfjörðum og hins vegar að lagðar verði raflínur sem tryggja sem fullkomnast raforkuöryggi.

Virkjun og vernd

Að mínu mati er það einna mest eftirtektarvert að starfshópurinn telur virkjun í Vatnsdal áhugaverðan kost sem geti leyst úr bráðum vanda í raforkumálum á Vestfjörðum. Því leggi starfshópurinn til að stjórnvöld taki afstöðu til þess að aflétta friðlýsingu í Vatnsfirði til að greiða fyrir þeim virkjunaráformum. Samhliða verði áfram unnið að stofnun þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum sem og stækkun á því svæði sem gert yrði að þjóðgarði að undanskildu því svæði sem virkjanaáform í Vatnsdal taka til.

Þetta er skynsamleg tillaga sem ég tel að mikil samstaða og samhljómur er um á Vestfjörðum enda gott jafnvægi á milli virkjunar og verndar. Kostir virkjunarinnar eru allmargir, t.a.m. batnar afhendingaröryggi raforku umtalsvert, flutningsgeta Vesturlínu eykst, hægt að draga nær alfarið úr notkun á varaafli og frekari aukning á olíuknúnu varaafli verður því óþarft, virkjunin er arðbær og umhverfisáhrifin eru takmörkuð.

Þá skiptir máli, eins og rakið er í skýrslunni, að nú þegar hafa verið heimilaðar talsverðar framkvæmdir innan friðlandsins í Vatnsfirði. Borað hefur verið eftir heitu vatni, orlofshús reist og Mjólkárlína lögð án þess að gildi friðlandsins hafi verið raskað. Þær forsendur sem lágu að baki friðlýsingunni 1975 voru fyrst og fremst birkiskógurinn í firðinum, ósnortinn frá landnámi. En ekki bendir til þess að neinum birkiskógi verði fórnað verði vatnsdalsvirkjun að veruleika.

Stjórnvöld grípi til aðgerða

Annar meginþáttur tillagan starfshópsins er að stjórnvöld stígi inn og leiði til lykta umræðu um staðsetningu og fýsileika tengipunkts flutningskerfisins í Ísafjarðardjúpi. Það er forsenda þess að hægt sé að nýta þá orkukosti á Vestfjörðum sem er að finna í 3. áfanga rammaáætlunar – Hvalárvirkjun á Ströndum og Austurgilsvirkjun í Ísafjarðardjúpi.

Í mínum huga er málið í raun einfalt. Ef ágreiningur um tengisgjaldið heldur áfram með þeim hætti að komið er í veg fyrir að ráðist verði í hagkvæmustu og skynsamlegustu framkvæmdirnar til að ráða bóta á raforkuvandamálum Vestfirðinga þá þarf einfaldlega að höggva á þann hnút með sér lagasetningu til þess að stjórnvöld geti uppfyllt loforðið um aukið raforkuöryggi, orkuskipti og uppbyggingu grænna atvinnutækifæra.  

Tíminn er núna

Staðan er öllum ljós og valkostirnir eru skýrir og klárir fyrir stjórnvöld. Á kynningarfundinum í Birkimel hafði ráðherra það að orði að boltinn væri núna hjá sér og að hann myndi taka sér mjög stuttan tíma til að bregðast við tillögum starfshópsins. Það var jákvætt að heyra því raforkumál á Vestfjörðum þola enga bið. Fjórðungurinn hefur dregist alltof langt aftur úr sem kemur sérstaklega illa niður á samkeppnishæfni svæðisins og takmarkar um of möguleika á frekari atvinnuuppbyggingu og orkuskiptum. Krafan er sú að stjórnvöld taki nú Vestfirði úr biðflokki ákvarðanafælni og aðgerðaleysis og setji í nýtingarflokk ákvarðana og aðgerða. 

Teitur Björn Einarsson,

þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi

DEILA