Vegagerðin auglýsir útboð á rekstri Breiðafjarðarferju – Nota á m/s Röst

Vegagerðin hefur auglýst útboð á rekstri Breiðafjarðarferju 2023-2026.

Það er sérleyfi fyrir Vegagerðina á ferjuleiðunum Stykkishólmur – Flatey – Brjánslækur – Flatey – Stykkishólmur, þ.e. að annast fólks- og vöruflutninga til og frá Stykkishólmi til Brjánslækjar, með viðkomu í Flatey.

Bjóðandi skal nota ferjuna m/s Röst sem er í eigu Vegagerðarinnar og er til sýnis í samráði við hana. Samningstími er 3 ár með möguleika á framlengingu allt að 2 sinnum, 1 ár í senn.

Röst var smíðuð í Noregi árið 1991 og er 66 metrar á lengd og 13,4 metrar á breidd. Ferjan tekur 2.036 brúttótonn, 235 farþega og 42 bíla í hverri ferð.

Röst hefur það fram yfir Baldur, auk þess að vera 12 árum yngri, að hún er með 2 aðalvélar en Baldur bara eina.

Til samanburðar er Baldur 68,3 m á lengd, 11,6 m á breidd og er 1.677 brúttótonn. Hann var smíðaður árið 1979. Baldur tekur 280 farþega og 49 bíla í ferð.

DEILA