Laugardaginn 10. júní kl. 15 opnar Kristín Dýrfjörð sýningu á útsaumsverkum í Listasafni Samúels í Selárdal við Arnarfjörð.
Verkin á sýningunni eru útsaumsverk sem Kristín hefur unnið síðastliðin þrjú ár. Þau eru óður til náttúrunnar. Viðfangsefnin eru aðallega fuglar, plöntur og minningar. Verkin eru saumuð með ýmiskonar garni, ull, bómull og silki. Kristín hefur starfað um árabil við Háskólann Akureyri þar sem hún kennir m.a. um sköpun barna og leik, m.a. í vísindasmiðju þar sem hún hefur leitast við að tengja saman fjölbreytta sköpun við leik og náttúruvísindi. Kristín kennir líka um sjálfbærni, og í þeim anda er garnið sem hún notar; keypt á nytjamörkuðum eða fengið frá vinum og vandamönnum. Nafn sýningarinnar vísar annarsvegar í lífsstarf Kristínar sem tengist börnum og barnamenningu, og hins vegar er það óður til saumhringsins, en hún notar útsaumshringi við saumaskap og hringformið heillar.
Sýningin stendur til 3. september. Opið er alla daga í Listasafni Samúels fram til þess tíma.