Suðureyri: vilja vistgötu og hringakstur

Grunnskólinn á Suðureyri. Mynd: Isafjördur.is

Hverfisráð Súgandafjarðar vill auka umferðaröryggi við Grunnskóla Suðureyrar með því að gera Túngötu að vistgötu og setja upp einstefnu við vestari enda Túngötu (t.d. við hús nr. 6), til að nokkurs konar „hringakstur“ myndist við skóla/íþróttahús, til að bæta umferðaröryggi á svæðinu.

Ábendingar og áhyggjur hafa komið frá hverfisráðinu um umferðaröryggi í kringum skólann/íþróttahúsið á Suðureyri við upphaf og lok skóladags.

Ábendingar eru á þann veg að mikill hraðakstur er um Túngötu, að og frá skóla úr tveimur áttum, bílar að fara inn í og bakka út úr bílastæðum á sama tíma og verið er að stöðva við skólann til að hleypa börnum út, auk gangandi umferðar nálægt ökutækjum. Þegar myrkur og snjór er á svæðinu eykst slysahætta enn frekar.

Þegar er búið að setja upp lokunarpósta við Túngötu 6, til að stöðva hraðakstur um götuna.

Í erindi hverfisráðsins er óskað eftir stuðningi bæjarráðs við tillögurnar. Bæjarráðið vísaði málinu til afgreiðslu í umhverfis- og framkvæmdanefnd og leggur í bókun áherslu á að tryggja aðkomu íbúa gagnvart tillögum um skipulagsbreytingar við Túngötu og að tryggja sem best öryggi barna í kringum skólann.

DEILA