Suðureyri: 16 frístundahús í undirbúningi

Frístundahúsin fimm sem þegar eru komin. Mynd: Elías Guðmundsson.

Fyrirtækið Nostalgía ehf á Suðureyri hefur sótt um heimild til þes að breyta deiliskipulagi við Lónið og fjölga frístundahúsum úr 9 í 16. Þegar er búið að reisa fimm slík hús. Um er að ræða að byggja á landfyllingu og er því horft til þess að hægt verði að hefa framkvæmdir á næsta ári. Elías Guðmundsson framkvæmdastjóri Nostalgíu ehf segir að færa þurfi þau fjögur hús sem núverandi skipulag gerir ráð fyrir vegna snjóflóðahættumats sem nú liggur fyrir. Í staðinn verði útivistarsvæði gert á þeim lóðum.

Sumarhúsin eru meðal annars leigð til ferðamanna sem stunda sjóstangveiði frá Suðureyri.

Um lóðaúthlutunina gildir sérstakur samningur milli Nostalgíu ehf og Ísafjarðarbæjar sem gerður var á síðasta ári. Þar kemur fram að Nostalgía gerir lóðirnar klárar og kostar það en að bærinn falli frá gatnagerðargjöldum, heimæðargjöldum og fráveitugjöldum.

Bæjarráð tók jákvætt í erindið og vísaði málinu til afgreiðslu í skipulags- og mannvirkjanefnd.

Tillaga að deiliskipulagi fyrir 16 frístundahús.

DEILA