Frá því er greint á vef Strandabyggðar að sveitarfélagið muni ekki standa fyrir hefðbundnum hátíðahöldum Hamingjudaga í ár. Í ljós hafi komið í skoðanakönnun sem tómstunda- íþrótta og menningarnefnd sveitarfélagsins tóð fyrir að lítill hluti heimamanna virtist hafa áhuga á hátíðarhöldum.
Fram kemur að töluverður sparnaður verði því undanfarin ár hafa hátíðarhöldin kostað um tvær milljónir króna. „Því fjármagni er ekki vel varið ef heimamenn sýna þessum uppákomum lítinn áhuga og njóta þeirra ekki með þátttöku. Örfáir sýndu áhuga á að standa að hátíðarhöldum og því augljóslega ekki almennur vilji til að halda þessari hátíð úti.“
Þá segir að bæjarhátíðir eru almenningshátíðir, þar sem íbúar og félagasamtök á svæðinu taka sig saman og gera sér glaðan dag en ef sú forsenda er ekki fyrir hendi þá hafi sveitafélgið því miður ekki fjárhagslega burði eða mannafla til að halda slíku úti eitt og sér.
En ef íbúa langar að koma saman dagskrá þá er boðið upp á að aðstoða einstaklinga og eða félagasamtök, sem hafa eitthvað fram að færa öðrum til skemmtunar. Hægt væri að fá húsnæði og aðstoð við auglýsingar ofl.