Óshlíðarhlaupið endurvakið

Frá vesturgötunni 2019.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur tekið jákvætt í það að gera þriggja ára styrktarsamning við Hlaupahátíðina á Vestfjörðum. Samþykkt var að veita 100.000 kr. styrk í ár auk uppsetningar fánaborga og fána, í samræmi við framkvæmd síðustu ára.

Það eru félagar í hlaupahópnum Riddarar Rósu sem hafa haldið utan um framkvæmdina á þessari hátíð undanfarin ár.

Grunnurinn að hlaupahátíðinni er Óshlíðarhlaupið sem fyrst var haldið 1993 i og svo Vesturgatan sem fyrst var hlaupin árið 2006. Fleiri greinar hafa bæst við síðan þá, má þar m.a nefna Skálavíkurhlaup þar sem hlaupið er frá Skálavík til
Bolungarvík með viðkomu á Bolafjalli í lengri vegalengd.

Þar sem 30 ár eru liðin síðan fyrst var keppt í Óshlíðarhlaupinu hefur verið ákveðið að endurvekja það sem og hleypa af stokkunum nýju 7 km utanvegahlaupi um varnargarðana í Skultulsfirði. Á móti verður Arnarneshlaupið hvílt um sinn.

Undanfarin ár hafa skráningar verið mjög góðar og til Vestfjarða hafa flykkst fleiri hundruð keppendur með fjölskyldur sem nýtt hafa sér þjónustu á svæðinu að því er fram kemur í erindið hlaupahópsins til Ísafjarðarbæjar.

„Framkvæmdin hefur gengið vel undanfarin ár, en þetta er gert af einskærum áhuga og vilja til að láta gott af sér leiða hér á Norðanverðum Vestfjörðum. Félagið á bak við hátíðina greiðir ekki laun og við komum ekki út í gróða. Markmiðið er að gera mótið sem best og að þeir sem komi til okkar fari ánægðir heim með góðar minningar frá svæðinu.“

Stór hluti styrkja og skráningargjalda fara í greiðslu til björgunarsveita og íþróttafélaga á svæðinu sem sjá um brautarvörslu, flutninga á fólki og fleira sem til fellur.

DEILA